Starfsemin

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnar Baldursson  -  RÚV

Ríkisútvarpið er útvarp allra landsmanna. Meginmarkmið þess er að upplýsa, fræða og skemmta. Þetta þríþætta hlutverk kemur fram í áherslum í fréttum, menningarefni og afþreyingu í útvarpi, sjónvarpi og öðrum miðlum. RÚV miðlar texta, hljóði og myndum og sinnir öryggisþjónustu á sviði útvarps. 95% þjóðarinnar nýta sér þjónustu RÚV í hverri viku og yfir 76% nýta sér þjónustu Ríkisútvarpsins daglega sem er með því mesta sem þekkist meðal ríkisfjölmiðla í Evrópu. 

Við flytjum fréttir í útvarpi, sjónvarpi og á vefnum allan sólahringinn alla daga ársins. Metnaðarfull og fjölbreytt dagskrá er á öllum miðlum RÚV. Útvarpsrásirnar eru Rás 1, Rás 2 og Rondó. Ríkisútvarpið sendir út fjölbreytta sjónvarpsdagskrá á RÚV en hefur einnig til umráða aukarás sem ber heitið RÚV 2. Á vefnum RÚV.IS er fréttavakt allan sólarhringinn og nær allt dagskrárefni sjónvarps og útvarps er aðgengilegt á vefnum í svokölluðum Sarpi. Einnig er auðvelt að nálgast efni RÚV á farsímum, spjaldtölvum og víðar í Sarps-appi. 

Dagskrársvið Rásar 1 og Rásar 2 sinnir framleiðslu og kaupum á efni fyrir útvarpsrásirnar en dagskrá þeirra er ólík og sinnir ólíkum þörfum. Á báðum rásum er lögð rík áhersla á menningarumfjöllun. Dagskrársvið sjónvarps sinnir framleiðslu og kaupum á efni fyrir sjónvarpsrásirnar og stýrir íþróttaumfjöllun á öllum miðlum RÚV. Fréttasvið stýrir fréttumfjöllun í öllum miðlum Ríkisútvarpsins með áherslu á samvinnu við önnur svið um miðlun fréttaumfjöllunar. 

Hlutverk vef- og nýmiðlasviðs er að reka og þróa vef Ríkisútvarpsins, www.rúv.is og þróun snjalltækjalausna svo sem Sarps-appsins. Sviðið ritstýrir efni á vefnum, stuðlar að því að hann sé áhugaverður, vandaður og fjölsóttur miðill þar sem efnisframboð RÚV er aðgengilegt. Einnig sinnir sviðið miðlun efnis RÚV á samfélagsmiðla, í VOD og fyrir aðra nýmiðla í samstarfi við dagskrárstjóra. Hlutverk deildarinnar er einnig að fara fyrir innleiðingu og notkun RÚV á nýjum miðlum og samskiptaformum.

Samskipta-, þróunar- og mannauðssvið setur eigendur RÚV, áhorfendur og hlustendur, í öndvegi. Markmið sviðsins er að opna umræðuna um hlutverk og dagskrá RÚV og kappkosta að hún skili sér í áherslum og stefnu fyrirtækisins. Sviðið stuðlar að auknu og opnara samtali um Ríkisútvarpið, inn á við og út á við. Það hefur með höndum kynningar- og markaðsmál og greiningu á notkun á miðlum RÚV. Samskiptasvið vinnur úr ábendingum frá almenningi. Stefnumótun, þróun og mannauðsmál heyra undir sviðið. Undir Svið rekstrar, fjármála og tækni heyra allar rekstrar-, fjármála- og tæknideildir fyrirtækisins, sem og auglýsingadeild. Skrifstofustjóri á skrifstofu útvarpsstjóra sér um samskipti við ýmsa opinbera hagsmunaaðila, nefndir og samtök, innanlands og erlendis og sinnir lögfræðilegum málefnum fyrir hönd RÚV.

Við leggjum sérstaka rækt við íslenska tungu, sögu þjóðar, menningararfleifð og tengsl við almenning. RÚV leggur áherslu á að sinna börnum og ungmennum af metnaði og skrásetur samtímasögu þjóðarinnar í hljóði og mynd með varðveislu alls dagskrárefns. Hljóðritanir, filmur, myndefni og aðrar sögulegar minjar eru aðgengilegar almenningi á Safnadeild RÚV.

Starfsstöðvar RÚV eru í Efstaleiti 1 í Reykjavík og á Akureyri en stefnt er að aukinni starfsemi á landsbyggðinni á næstu misserum.

 

Miðlarnir

Mynd með færslu

RÚV – sjónvarpið okkar

RÚV er sjónvarpsstöð í eigu íslensku þjóðarinnar. Hlutverk stöðvarinnar er að upplýsa, fræða og skemmta áhorfendum á öllum aldri. Innlend dagskrá er í öndvegi, nýir þættir, leikið efni, fræðsla, fréttir, umræða, leikuppfærslur, íþróttir, kvikmyndir, heimildamyndir og stuttmyndir. Að auki er í boði sérvalið erlent efni og yngstu áhorfendurnir fá alls uppbyggjandi og skemmtilegt efni við sitt hæfi, íslenskt eða talsett á íslensku.  RÚV er  mikilvægur þátttakandi í íslensku menningarlífi, vettvangur fyrir metnaðarfulla og fjölbreytta nýsköpun í dagskrárgerð, leiðandi í efnistökum og gæðum, veita afþreyingu og vera gluggi að erlendri menningu og málefnum.

RÚV2 - þegar mikið liggur við

RÚV2 er aukarás Ríkisútvarpsins og viðburðasjónvarpsstöð. Ekki er boðið upp á samfellda dagskrá heldur er stöðin nýtt sem viðbót við aðalrás Ríkisútvarpsins, RÚV. Þar er einkum boðið upp á beinar útsendingar og upptökur frá markverðum menningar- og íþróttaviðburðum, innlendum sem erlendum.

Rás 1 - við viljum vekja forvitni ykkar

Rás 1 endurómar lífið í landinu, heimsbókmenntirnar, listirnar, vísindi og fræði í sögu, samtíð og framtíð. Rás 1 er ekkert óviðkomandi. Á Rás 1 geta hlustendur leyft sér að gleyma erli hversdagsins. Hlustendum er boðið í ævintýraferð, þeir heyra sögur af áhugaverðu fólki, fréttir og umræður um menn og málefni af ýmsu tagi, hlýða á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands eða fara í leikhús.

Rás 2 - við látum ykkur vita hvað er að gerast

Íslensk tónlist er hjartað í Rás 2. Meginhlutverk hennar er að fylgjast með og sinna íslenskri tónlist, spila hana, kynna hana og fjalla um hana. En það er ekki bara hjartað sem heldur okkur á lífi. Yfirlýst markmið RÚV er að upplýsa, fræða og skemmta. RÁS 2 hefur frá upphafi verið mjög öflugt dægurmálaútvarp, útvarp með puttann á púlsinum í dægurmálum, menningu og þjóðmálaumræðu.

Rondó - sígild tónlist allan sólarhringinn

Rondó er alsjálfvirk útvarpsstöð fyrir þá sem vilja láta koma sér á óvart með sígildri tónlist heimsins.

RÚV.is - þegar þú vilt, þar sem þú vilt

RÚV.IS er ekkert mannlegt óviðkomandi. Nýr vefur RÚV.IS fór í loftið í janúar 2015. Hann er suðupottur, þar stöndum við fréttavaktina allan sólarhringinn og miðlum miklu magni úrvalsefnis allan sólarhringinn, alla daga ársins. Fréttir, menning, menning, mannlif og skemmtiefni, allt sem máli skiptir og nýjustu fréttir þegar þú vilt. Sarpurinn á RÚV.IS og Sarpsappið eru einföld leið til að hlusta og horfa á það sem þú vilt, þear sem þú vilt, þegar þú vilt. Í Sarpinn bætast meira en 400 upptökur úr útvarpi og sjónvarpi vikulega.

 

Fréttaþjónusta

Mynd með færslu
 Mynd: Óöf Erla Einarsdóttir  -  RÚV

Fréttastofa RÚV flytur fréttir í útvarpi, sjónvarpi og á vefnum allan sólarhringinn alla daga ársins og færir landsmönnum nýjustu  tíðindi og fréttaskýringar af innlendum sem erlendum vettvangi.

Fréttaþjónusta RÚV er sjálfstæð, áreiðanleg, almenn og hlutlæg. Hún er vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni og almenning varða. Vandaðir sjónvarpsfréttatímar og veðurfréttatímar eru daglega en fjóra daga vikunnar eru þeir tveir dag á dag.  Þá eru daglega táknmálsfréttir í sjónvarpi.  Útvarpsfréttatímar í beinni útsendingu eru 16-17 talsins hvern dag auk veðurfrétta sem fluttar eru fimm sinnum á dag.  Fréttamenn eru á vakt allan sólarhringinn og uppfæra vefinn RÚV.IS með því allra nýjasta hverju sinni.  Þá er boðið upp á fréttaskýringarþætti þar sem kafað dýpra í mál líðandi stundar.  Önnur föst verkefni fréttastofunnar eru fréttaannálar í útvarpi og sjónvarpi. Beinar útsendingar frá stefnuræðu forsætisráðherra, eldhúsdagsumræðum á Alþingi sem og frá setningu Alþingis auk umfjöllunar um kosningar til sveitarstjórnar, Alþingis og forseta Íslands.  Fréttastofa RÚV er hluti af almannavörnum og sinnir mikilvægri öryggisþjónustu vegna jarðhræringa, veðurs, ófærðar og annarra stóratburða. Fer fyrirvaralaust í útvarps- og sjónvarpsútsendingar er almannahagsmunir liggja við. 

 

Aðgengismál

Mynd með færslu

Ríkisútvarpið tekur það hlutverk sitt alvarlega að veita heyrnar- og sjónskertum víðtæka þjónustu jafnt við miðlun menningar og upplýsinga er varða allan almenning og stuðla að því að heyrnar- og sjónskertir fái upplýsingar og geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu. Okkar metnaðarmál er að sinna öllum landsmönnum eins vel og kostur er og leitum sífellt nýrra og betri leiða til að tryggja það.

Allt fyrirfram unnið dagskrárefni Ríkisútvarpsins, íslenskt sem erlent, er sent út með texta. Texti með innlendu efni er birtur á síðu 888 í textavarpinu. Kvöldfréttir kl. 19 og íþróttir að þeim loknum eru sendar út með skjátexta. Innlendir þættir sem ekki næst að texta fyrir frumsýningu eða sýndir eru í beinni útsendingu eru textaðir fyrir endursýningu. Allt erlent efni, jafnt fréttir sem fróðleikur og afþreying, er þýtt og sent út með íslenskum texta, nema í fáeinum tilvikum þegar erlent efni er sýnt í beinni útsendingu. Markmiðið er að auka þessa þjónustu enn frekar.  

Sem fyrr flytur RÚV daglega fréttir á táknmáli og þær eru jafnframt aðgengilegar í Sarpinum á rúv.is. RÚV er eina íslenska fréttaveitan sem býður upp á sjónvarpsfréttir ætlaðar heyrnarlausum. Þegar flytja þarf fréttir af náttúruhamförum sem snerta alla landsmenn er kallaður til rittúlkur sem og þegar túlka þarf lengri viðtöl og annað efni í beinni útsendingu. Í aðdraganda kosninga er rittúlkur nýttur eftir föngum.

Með endurbættum vef er lögð áhersla á að greina frá efni þátta í öllum miðlum RÚV svo aðgengi heyrnarskertra að útvarpsþáttum eykst. Þar er líka gott aðgengi að fréttum og fréttavakt allan sólarhringinn. Vefurinn er aðgengilegur skjálesurum sem blindir og sjónskertir nota. Íslensk vefþula er einnig í boði á vefnum en hún les upphátt allan texta. RÚV.is er jafnframt hannaður í samvinnu við aðgengissérfræðinga.

Ríkisútvarpið kappkostar að sinna aðgengismálum eftir bestu getu og því tökum við öllum ábendingum fagnandi hvað þetta varðar. 

RÚV utan Reykjavíkur

RÚV Akureyri

RÚV rekur öfluga starfsemi út um land allt. Höfuðstöðvarnar á landsbyggðinni er á Akureyri þar sem fréttum og dagskrárgerð í sjónvarpi, útvarpi og vef er sinnt. RÚV hefur einnig fréttamenn á Vestfjörðum, Vesturlandi, Austurlandi og Suðurlandi.

Öflug fréttaþjónusta af landsbyggðinni er ein sérstaða RÚV og er lögð mikil áhersla á trausta og góða þjónustu við áhorfendur og hlustendur. Öryggis- og almannavarnarhlutverk RÚV spilar þar stóran þátt. Oftast er sjónum beint að viðkomandi landssvæði, með beinum útsendingum, fréttum, fréttaskýringum eða þáttum, en einnig málum sem varða landið allt.