Gullkistan og safnið

Mynd með færslu

Um Gullkistuna

Í hartnær níu áratugi, allt frá upphafi útsendinga, hefur RÚV skráð samtímasöguna í hljóði og mynd. Þessar merku heimildir eru geymdar á safnadeild RÚV sem heldur utan um gríðarlegt magn safnefnis. Þær hafa fengið nafnið Gullkistan enda er þetta efni sannkallaður þjóðararfur. Almenningi býðst að heimsækja safnið en Ríkisútvarpið og þjóðin standa frammi fyrir stórátaki til að koma þessum mikilvægu menningarverðmætum á stafrænt form til öruggrar varðveislu.

Samkvæmt útvarpslögum skal RÚV varðveita hljóðritanir, filmur, myndefni og aðrar sögulegar minjar, sem ætla má að hafi menningarlegt og sögulegt gildi fyrir íslensku þjóðina og heyra ekki sérstaklega undir lög um skylduskil safna. Allt dagskrárefni RÚV er því varðveitt til frambúðar í heild sinni og tryggja þarf aðgengi að því. Þá er Ríkisútvarpinu heimilt að fela viðurkenndum söfnum varðveislu menningar- og söguminja. Hlutverk safnadeildar er því að varðveita dagskrárefni RÚV og gera það aðgengilegt almenningi til frekari dagskrárgerðar og rannsókna. Þannig varðveitum við jafnframt þjóðarsöguna eins og hún endurspeglast í dagskránni.

Ljóst er að það er mikið hagsmunamál að dýrmætum menningarverðmætum verði komið á aðgengilegt og varanlegt form til framtíðar. Hluti safnsins eru gamlar upptökur sem oft eru einungis til í einu eintaki, gjarnan á lakkplötum eða segulbandi. Ef ekki verður brugðist við fljótlega er hætt við að hluti þessa efnis skemmist. Verkefnið er umfangsmikið og kostnaðarsamt og þörf er á miklum aðgerðum til að tryggja framtíð þess efnis sem í Gullkistunni leynist. RÚV hefur hug á að því að varðveita þessi menningarverðmæti og miðla þeim með dreifileiðum nútímans. Jafnframt þarf að ganga frá ýmsum réttindamálum sem snúa að safnaefninu. 

Allir geta skoðað og hlustað á dagskrárefni RÚV úr Gullkistu

Safn RÚV er öllum opið. Hægt er að leita í gagnagrunnum og skoða og hlusta á dagskrárefni á staðnum. Dagskrárefni útvarps er varðveitt á stafrænu formi frá árinu 2008 og dagskrárefni sjónvarps frá árinu 2014. Safnadeild varðveitir allt dagskrárefni og tónlist í gagnagrunninum Kistu. Mikið af eldra efni RÚV er varðveitt á böndum, spólum og diskum. Eldra efni er að mestu skráð í Kistu og á spjaldskrá safnsins.
Panta þarf tíma til þess að skoða og ekki er heimilt að fara með efni safnsins úr húsi. Safnið er opið alla virka daga kl. 12:00–16:00. Síminn á safnadeild er 515 3151 og netfangið er safn@ruv.is

Verslun

Mynd með færslu

Að kaupa efni af söludeild RÚV

Einstaklingum og fyrirtækjum býðst að kaupa efni úr safni Ríkisútvarpsins samkvæmt gjaldskrá. Hluti efnis er þó undanskilinn því Ríkisútvarpinu er ekki heimilt að afrita erlent efni til þriðja aðila. Það sama gildir um innlent tónlistar- og leiklistarefni auk efnis sem framleitt er af öðrum en RÚV. Hægt er að fá undanþágu frá þessu með því að afla leyfis rétthafa efnisins. Verð fyrir efni sem Ríkisútvarpinu er heimilt að selja fer eftir notum.

Einstaklingar – Til einkanota

Umsýslugjald fyrir hverja afgreidda pöntun er 4.500,- kr.  Afhending er rafræn.

Framleiðendur – Til efnisöflunar

Efni sem nýtt er vegna efnisöflunar framleiðanda er afhent um vef með tímakóða í mynd.
Umsýslugjald fyrir hverja afgreidda pöntun er 4.500,- kr.  Afhending er rafræn.    
Verð fyrir efni sem afhent er vegna framleiðslu fer eftir notkun.  Vinsamlegast hafið samband við safnadeild fyrir frekari upplýsingar.

Fyrirtæki og samtök – takmörkuð og tímabundin notkun

Fyrirtæki eða samtök sem óska eftir því að fá mynd- eða hljóðbrot til sýningar í húsakynnum eða í minni gæðum á innri vef greiða 30.000 kr. eingreiðslu fyrir slíkt efni miðað við hóflega lengd og einn master.
Umsýslugjald fyrir hverja afgreidda pöntun er 4.500,- kr.  Afhending er rafræn. 
Allar nánari upplýsingar um sölu á efni RÚV fást í síma: 515 3792 og með pósti á netfangið safn@ruv.is
Hægt er að greiða með kredit- eða debetkorti í safni eða með millifærslu í heimabanka.