RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Yfirburðatraust til RÚV–traustið styrkist milli ára

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Yfirburðatraust til fréttastofu RÚV er staðfest enn á ný í könnunum meðal almennings. Í nýrri könnun MMR sem gerð var í maí báru 69,3% þátttakenda mikið traust til fréttastofu RÚV en traustið mældist 69% í desember 2016.

Þá var einnig kannað traust til annarra fréttamiðla og sú mæling sýnir að RÚV ber höfuð og herðar yfir alla aðra fjölmiðla landsins hvað traust varðar. Næstu fréttamiðlar á eftir RÚV, sem voru fréttastofa Stöðvar 2 og mbl.is, nutu trausts 41% svarenda. Meðal annarra jákvæðra niðurstaðna var að þeim sem segjast bera lítið traust til fréttastofu RÚV fækkar um 3% frá því í desember samkvæmt könnuninni. Þeir sem bera lítið traust til RÚV eru nú 10% (en voru yfir 13% í desember) en þeim sem svara „hvorki né” eru um 20%.

RÚV er ein mikilvægasta og traustasta veita upplýsinga fyrir samfélagið og sinnir frétta- og öryggishlutverki sínu allan sólarhringinn, alla daga ársins. Almenningur treystir RÚV og notar þjónustu miðla þess í um tvær klukkustundir á dag að meðaltali. RÚV kannar reglulega áhorf og hlustun, gerir viðhorfskönnun og mælir traust árlega og er í stöðugu samtali við áhorfendur og hlustendur í gegnum ábendingagáttir á vef og samfélagsmiðlum.

Í nýrri stefnu RÚV til ársins 2021, sem kynnt var þann 18. maí, er sérstök áhersla lögð á öryggis- og lýðræðishlutverk RÚV. Meðal aðgerða er efling rannsóknarblaðamennsku með nýjum, vikulegum fréttaskýringaþætti, sem fer í loftið í haust. Einnig verður fréttaþjónusta RÚV gerð snarpari með nýju fréttamyndveri og neytendamál og beinar útsendingar á vettvangi verða settar í forgang. Einnig verður þjónusta við nýja Íslendinga bætt á næstu árum. Lesa má meira um stefnumið og helstu aðgerðir í ítarlegu stefnuskjali: RÚV okkar allra til framtíðar – Stefna til 2021.

Könnun MMR var gerð dagana 10. – 16. maí í Spurningavagni MMR. Spurt var: Hversu mikið eða lítið traust berð þú til fréttastofu RÚV? og í úrtaki voru einstaklingar 18 ára ára og eldri. 944 svöruðu.

 

15.06.2017 kl.15:18
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, Fréttastofa RÚV, Í umræðunni, rúv, RÚV 2021, Skoðanakannanir, traust