RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Tökur hafnar á páskamynd RÚV

Frá tökum á páskamynd RÚV 2018 - vinnutitill Mannasiðir í leikstjórn Maríu Reyndal.
 Mynd: Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir  -  RÚV
Frá tökum á páskamynd RÚV 2018 - vinnutitill Mannasiðir í leikstjórn Maríu Reyndal.
 Mynd: Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir  -  RÚV
Tökur eru hafnar á páskamyndinni í ár en um er að ræða verk eftir Maríu Reyndal sem er unnið upp úr útvarpsleikriti sem hún skrifaði og leikstýrði fyrir RÚV vorið 2017. Leikritið var tilnefnt til Grímuverðlauna á síðasta ári og hefur nú verið aðlagað að sjónvarpi.

Verkið tekur á gráa svæðinu, hvar hin nýju mörk liggja nú í samskiptum kynjanna. Geta tveir aðilar upplifað sama verknaðinn á gjörólíkan hátt? Hvernig skilgreinum við nauðgun? Hvaða áhrif hefur klámvæðingin á ungt fólk? Og hvaða áhrif hefur brotið á vinahópana og fjölskyldurnar?

Menntaskólanemi er ásakaður um að nauðga skólasystur sinni. Hann neitar sök en á sér ekki viðreisnar von innan veggja skólans þar sem stúlkan á sterkt stuðningsnet og póstar rödd sinni inn á #Metoo síðum skólans. 

Hann er rekinn úr hljómsveitinni, missir vinina og er í sjálfsmorðshættu en það er ekki fyrr en stúlkan mætir í viðtal á sjónvarpsstöðinni þar sem mamma hans vinnur að sagan tekur óvænta stefnu.

Aðalleikarar í myndinni eru Eysteinn Sigurðarson, Ebba Katrín Finnsdóttir, Sólveig Guðmundsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson. Myndin er framleidd af Glassriver í samstarfi við RÚV.