RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Samnorræn framleiðsla mun stóraukast

Mynd með færslu
DR, NRK, RÚV, SVT og YLE samþykkja áætlun um aukið samstarf og stóraukna framleiðslu og framboð á leiknu, norrænu sjónvarpsefni

•    Aukin framleiðsla á leiknu norrænu efni.
•    Aukin samframleiðsla almannaþjónustumiðlanna (DR, NRK; RUV, SVT og YLE).
•    Aukið framboð á norrænu leiknu efni á öllum Norðurlöndunum. Heimili efnisins verður hjá almannaþjónustumiðli hvers lands. 
•    Bætt aðgengi á spilurum og í ólínulegum heimi.

Norrænir fjölmiðlar í almannaþágu hafa á undanförnum árum getið sér gott orð fyrir framleiðslu á framúrskarandi leiknu, norrænu sjónvarpsefni. Vandað leikið efni með sterka tengingu við norræna menningu og metnaður í þágu almannaþjónustu hefur orðið eitt af helstu vörumerkjum norrænna sjónvarpsstöðva og hafa borið hróður norrænnar menningar um allan heim.

Með auknu aðgengi að alþjóðlegum efnisveitum er framboð á leiknu, bandarísku sjónvarpsefni meira en nokkru sinni. Til að auka samkeppnishæfni leikins, norræns efnis, í sjónvarpi og á vef, hafa norrænu sjónvarpsstöðvarnar DR, NRK, RÚV, SVT og YLE sammælst um nýja áætlun sem lýtur að auknum gagnkvæmum skiptum í formi samframleiðslu og sýningu á leiknu sjónvarpsefni.

Þessi nýja áætlun styrkir mjög samstarf sjónvarpsstöðvanna. Markmiðið er að framleiða og bjóða upp á meira og vandaðra leikið, norrænt sjónvarpsefni. Samhliða verður lögð aukin áhersla á framboð slíks efnis í ólínulegri dagskrá í vefspilurum og efnisveitum sjónvarpsstöðvanna sem njóta síaukinna vinsælda.

Áætlunin byggir meðal annars á fyrirhugaðri aukningu á norrænni samframleiðslu og þar af leiðandi auknu framboði á norrænu, leiknu efni. Nýjum samráðshópi verður gert að stuðla að enn frekara samstarfi um framleiðslu, á milli norrænu stöðvanna og sjálfstæðra framleiðenda með skjótari og markvissari hætti en hingað til.

Útvarpsstjórar norrænu sjónvarpsstöðvanna undirrituðu samkomulagið á fundi sínum í Stokkhólmi í gær, fimmtudag. Útvarpsstjórarnir fagna mjög þessum áfanga sem markar tímamót í áralöngu og gæfuríku samstarfi milli stöðvanna:

  • „Leiknar, norrænar sjónvarpsþáttaraðir keppa við besta sjónvarpsefni sem í boði er á alþjóðavísu. Þessi nýja sameiginlega áætlun okkar og aukið samstarf er skref í átt að enn sterkara framboði af leiknu sjónvarpsefni en norrænar sjónvarpsstöðvar í almannaþjónustu geta boðið í dag, sjónvarpsefni sem einn daginn verður hluti af sameiginlegum menningararfi okkar,“ segir Maria Rørbye Rønn, útvarpsstjóri DR.
  • „Við segjum sögur úr nærumhverfi okkar, sögur sem skipta máli – sögur sem endurspegla umhverfi okkar og menningu betur en bandarískt afþreyingarefni. Með þessu samkomulagi býðst áhorfendum okkar enn meira gæðaefni frá Norðurlöndunum og sjónvarpsstöðvar og spilarar almannaþjónustumiðlanna verða þekktir sem heimili þessa efnis,“ segir Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri RÚV.
  •  „Skýr áhersla á leikið efni sem endurspeglar norræna menningu, veruleika og sjálfsmynd er í takt við markmið sjónvarps í almannaþjónustu og gefur notendum okkar raunveruleg og áþreifanleg fyrirheit sem skilja okkur frá öðrum framleiðendum sjónvarpsefnis,“ segir Marit af Björkesten, formaður Nordvision, samstarfsvettvangs norrænna sjónvarpsstöðva í almannaþjónustu og staðgengill útvarpsstjóra YLE.
  • „Nýjustu dæmi um leikið úrvalsefni frá norrænum sjónvarpsstöðvum í almannaþjónustu  sannfærir okkur um að aukið samstarf á sviði leikins sjónvarpsefnis verður áhorfendum okkar öllum til góða,“ segir Hanna Stjärne, útvarpsstjóri SVT.
  • „Náið langtímasamstarf, eins og nýja áætlunin um leikið sjónvarpsefni, byggir á trausti og sannfæringu fyrir því að við getum unnið enn betur saman að enn stærri og vandaðari verkefnum en áður,“ segir Thor Gjermund Eriksen, útvarpsstjóri NRK. „Sjónvarpsstöðvarnar hafa átt langt samstarf og hafa mikla trú á getu allra stöðvanna til að framleiða leikið úrvalssjónvarpsefni á alþjóðavísu.“

 

Nordvision-samstarfið vinnur að því að styrkja sjónvarp í almannaþjónustu á Norðurlöndunum og stuðla að auknu samstarfi milli landanna þegar kemur að framleiðslu sjónvarpsefnis. Samstarfsaðilarnir samframleiða og skiptast á sjónvarpsefni, þróa hugmyndir og deila þekkingu. Það spannar ríflega 4.500 sjónvarpsþætti á hverju ári. Á síðasta ári var slegið met í samframleiðslu með 1.626 sjónvarpsþáttum. Af þeim voru 267 þættir leikið efni. Nokkur dæmi um nýtt sjónvarpsefni og annað sem vænta má á næstunni á norrænum og alþjóðlegum markaði er Brúin/Broen (SVT og DR), Vegir drottins/Herrens veje (DR), Monster (NRK), Vår tid är nu (SVT), The Independence Day (YLE) og Fangar (RÚV).

RÚV hefur að undanförnu stóraukið áherslu og framboð á leiknu íslensku efni. Í þeim tilgangi var RÚV myndir stofnað, fagráð sett á laggirnar, handritaráðgjafi ráðinn og árlegt framlag í þennan málaflokk hækkað. Samhliða hefur samstarf RÚV við norrænu stöðvarnar og aðra erlenda samstarfsaðila verið aukið. Stefna RÚV er að vinna stærstan hluta þessara verkefna í samstarfi við sjálfstæða framleiðendur hér á landi. Afrakstur þessa er meðal annars þáttaraðir eins og Ófærð, Fangar, Hraunið og Loforð. Fjölmörg verkefni eru í þróun og má þar nefna Ófærð 2, Fangar 2, Flateyjargátuna, Sjálfstætt fólk, Valhalla murders og Ráðherrann. Íslenskt sjónvarpsefni hefur farið um allan heim og eftirspurn eftir íslensku leiknu efni erlendis hefur aldrei verið meiri. Til að mæta þeirri eftirspurn hóf RÚV samstarf við DR sales sem selur íslenkst leikið efni á erlendri grundu.