RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

RÚV er langmikilvægasti fjölmiðillinn að mati þjóðarinnar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ný viðhorfskönnun Gallup sem gerð var í maí sýnir að mikill meirihluti landsmanna er þeirrar skoðunnar að RÚV sé mikilvægasti fjölmiðill þjóðarinnar.

Mikilvægið hefur ekki mælst meira í 15 ár og eykst með afgerandi hætti milli ára. Rúmlega 72% aðspurðra telja Ríkisútvarpið vera þann íslenska fjölmiðil sem er mikilvægastur fyrir þjóðina. Þetta er stökk upp um 4,4% frá fyrra ári og mest afgerandi útkoma þessarar könnunar í 15 ár eða frá árinu 2002.

Jákvæðni þjóðarinnar ekki verið meiri síðan 2006

Könnunin leiðir enn fremur í ljós að jákvæðni þjóðarinnar gagnvart RÚV og þjónustu þess hefur ekki verið meiri frá árinu 2006. Tæp 72% aðspurðra eru mjög eða frekar jákvæð gagnvart Ríkisútvarpinu sem er sama góða staða og í maí 2016. Um 18% svara „hvorki né“ og 10% eru mjög eða frekar neikvæðir gagnvart RÚV.

Yfirburðatraust til RÚV – traustið styrkist milli ára

Yfirburðatraust til fréttastofu RÚV var staðfest í traustskönnun MMR í maí. Könnunin sýnir að 69,3% þátttakenda bera mikið traust til fréttastofu RÚV en traustið mældist 69% í desember 2016. Þá var einnig kannað traust til annarra fréttamiðla og sú mæling sýnir að RÚV ber höfuð og herðar yfir alla aðra fjölmiðla landsins hvað traust varðar. Næstu fréttamiðlar á eftir RÚV njóta 30-41% trausts. Meðal annarra jákvæðra niðurstaðna var að þeim sem segjast bera lítið traust til fréttastofu RÚV fækkar um 3% frá því í desember samkvæmt könnuninni. Þeir sem bera lítið traust til RÚV eru nú 10% (en voru yfir 13% í desember) og um 20% svara „hvorki né”.

Viðhorfskönnunin var netkönnun gerð af Gallup dagana 17. -  29. maí 2017. Úrtak var 1.556 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri, handahófsvalið úr Viðhorfahópi Gallups. 848 svöruðu eða 54,5%.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Gallup
19.06.2017 kl.10:50
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, Í umræðunni