RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Ragnhildur Steinunn verður aðstoðardagskrárstjóri

Mynd með færslu
 Mynd: Samskiptasvið  -  RÚV
Ragnhildur Steinunn Jónsdottir verður aðstoðardagskrárstjóri sjónvarps samkvæmt nýju skipuriti RÚV. Ragnhildur Steinunn mun vinna við hlið Skarphéðins Guðmundssonar dagskrárstjóra og dagskrárdeildar að dagskrártengdum málefnum Sjónvarps.

Hún mun koma að ytri og innri samskiptum dagskrárdeildar sjónvarps og vera alhliða stuðningur við dagskrárstjóra meðfram því að sinna áfram dagskrárgerð fyrir sjónvarp. 

Ragnhildur Steinunn hefur víðtæka reynslu þegar kemur að framleiðslu og ritstjórn sjónvarpsefnis. Hún hefur starfað hjá RÚV frá árinu 2004 og meðal annars sinnt þáttagerð fyrir Kastljós, Óskalög þjóðarinnar, Dans dans dans, Gott kvöld, Ísþjóðina með Ragnhildi Steinunni og Laugardagslögin svo fátt eitt sé nefnt. Ragnhildur Steinunn situr í framkvæmdastjórn Söngvakeppninnar og hefur haldið utan um dagskrárgerð keppninnar síðustu ár. Að auki hefur hún verið kynnir keppninnar, nær viðstöðulaust, frá árinu 2007. 

Ragnhildur Steinunn leikstýrði og framleiddi heimildamyndina ,,Hrafnhildur-heimildamynd um kynleiðréttingu” sem hlaut Eddu-verðlaunin árið 2013. Árið 2014 var heimildamyndin „Ég gafst ekki upp“ í umsjón Ragnhildar Steinunnar einnig tilnefnd til Eddu-verðlaunanna. Ragnhildur Steinunn ritstýrði sjónvarpsþáttunum Hæpið á RÚV en þeir hlutu fjölmiðlaviðurkenningu Stígamóta fyrir umfjöllun sína um kynferðisofbeldi árið 2015 og voru að auki tilnefndir til Eddu-verðlauna. Hún er annar höfunda og útgefanda bókarinnar Forystuþjóð en bókin er viðtalsbók um stöðu jafnréttismála á Íslandi árið 2017. Ragnhildur Steinunn er með B.Sc. gráðu í sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands.