RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Menningarviðurkenningar RÚV veittar við hátíðlega athöfn

Menningarviðurkenningar afhentar fyrir árið 2017.
 Mynd: Mummi Lú  -  RÚV
Menningarviðurkenningar afhentar fyrir árið 2017.
 Mynd: Mummi Lú  -  RÚV
Menningarviðurkenningar afhentar fyrir árið 2017.
 Mynd: Mummi Lú  -  RÚV
Menningarviðurkenningar RÚV fyrir árið 2017 voru veittar í dag kl. 16 við hátíðlega athöfn í Stúdóí A í Útvarpshúsinu við Efstaleiti. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og fleiri góðir gestir voru við athöfnina sem útvarpað var á Rás 1.

Veitt var viðurkenning úr Rithöfundasjóði og styrkir úr Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins. Auk þess veitti Rás 2 Krókinn, verðlaun fyrir framúrskarandi lifandi flutning árið 2017 og tilkynnt var um valið á orði ársins. Sigurlaug M. Jónasdóttir var kynnir á athöfninni, Frímann Gunnarsson tilkynnti um val á orði ársins og þau Anna Gréta Sigurðardóttir, Einar Scheving og Þorgrímur Jónsson fluttu tónlistaratriði.

Hallgrímur Helgason hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf. Í rökstuðningi úthlutunarnefndar segir meðal annars: „Íslenskum bókaunnendum varð snemma ljóst að þar fór höfundur sem vildi ekki aðeins skrifa sig inn í íslenska bókmenntasögu sem ungur og metnaðarfullur höfundur, heldur líka gera það með nýjum hætti og vera öðruvísi en hinir sem þá þegar voru orðnir þekktir af verkum sínum.“ 

Hljómsveitin Mammút hlaut Krókinn 2017 - viðurkenningu Rásar 2, fyrir framúrskarandi flutning á árinu.

Epalhommi er orð ársins 2017. Sindri Sindrason fréttamaður á Stöð 2 ræddi við Töru Margréti Vilhjálmsdóttur, formann Samtaka um líkamsvirðingu, í tengslum við grasrótarhátíðina Truflandi tilvist þann 6. mars 2017. Tara Margrét sagði að maður í forréttindastöðu, eins og Sindri, gæti ekki sett sig í spor fólks í jaðarhópum sem verður fyrir fordómum annarra. Sindri taldi þá upp nokkra minnihlutahópa sem hann tilheyrði. Svar Sindra vakti harkaleg viðbrögð á samfélagsmiðlum og meðal annars talaði Hildur Lilliendahl Viggósdóttir um kúgaða, hvíta, ófatlaða epalhommann og þar birtist orðið fyrst. Daginn eftir, 7. mars, birtist opnuauglýsing frá versluninni Epal í dagblöðum. Auglýsingin er einfaldlega mynd af sex þekktum hommum í verslun Epals og er hún án orða. Hér á vel við orðtakið þeir skilja sem vilja því að með þessari orðlausu auglýsingu var merkingu orðsins epalhommi snúið við. Það var sett fram í niðrandi merkingu en snúið upp í jákvæða. Í íslenskri nútímamálsorðabók á vefgáttinni málið.is er orðið epalhommi sagt merkja, „samkynhneigður karlmaður sem hefur áhuga á vandaðri hönnun.“   

Alls voru 92 styrkir veittir úr sameinuðum Tónskáldsjóði Ríkisútvarpsins og STEFs árið 2017, en sjóðurinn hefur það markmið að stuðla að frumsköpun og útbreiðslu íslenskrar tónlistar. Sjóðurinn veitir fjárstuðning til höfunda fyrir tónsmíði og heildstæð verk og er sérstaklega horft til fagþekkingar auk þess sem metnaðarfyllri og yfirgripsmeiri verkefni hljóta forgang. Einnig er tilgangur sjóðsins að veita fjárstuðning við nýsköpun verka til flutnings í miðlum RÚV. 

Styrkina á síðasta ári hlutu Anna Þorvaldsdóttir, Auðunn Lúthersson, Áskell Másson, Bára Gísladóttir, Bergrún Snæbjörnsdóttir, Bryndís Jakobsdóttir, Daníel Helgason, Davíð Brynjar Franzson, Davíð Þór Jónsson, Egill Ólafsson, Elín Gunnlaugsdóttir, Erik DeLuca, Finnur Karlsson, Finnur Torfi Stefánsson, Guðmundur Pétursson, Gunnar Andreas Kristinsson, Hafdís Bjarnadóttir, Haraldur V. Sveinbjörnsson, Haukur Freyr Gröndal, Haukur Þór Harðarson, Haukur Tómasson, Hera Hjartardóttir, Hilmar Örn Hilmarsson, hljómsveitin Nýdönsk, hljómsveitin Valdimar, Hlynur Aðils Vilmarsson, Hreiðar Ingi Þorsteinsson, Hugi Guðmundsson, Indriði Arnar Ingólfsson, Ingi Bjarni Skúlason, Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir, Jesper Pedersen, Jóhann G. Jóhannsson, Jónas Sigurðsson, Jónas Tómasson, Karólína Eiríksdóttir, Kári Einarsson, Kolbeinn Bjarnason, Kristinn Roach, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Kristófer Rodrigez, Lára Rúnarsdóttir, Lára Sóley Jóhannsdóttir, Leifur Gunnarsson, Leifur Þórarinsson, Listahátíð Reykjavíkur, Marketa Irglova, Mezzoforte, Oliver Kentish, Ómar Guðjónsson, Páll Ragnar Pálsson, Ragnheiður Erla Björnsdóttir, Sigmar Þór Matthíasson, Sigrún Jónsdóttir, Sigurður Árni Jónsson, Sigurður Bjóla Garðarsson, Sigurður Sævarsson, Soffía Björg Óðinsdóttir, Steingrímur Þórhallsson, Stuðmenn, Sunna Gunnlaugsdóttir, Sveinn Lúðvík Björnsson, Unnar Gísli Sigurmundsson, Unnur Sara Eldjárn, Valgeir Sigurðsson, Yrkja III – Tónverkamiðstöð, Þorsteinn Gunnar Friðriksson, Þóranna Dögg Björnsdóttir, Þórunn Gréta Sigurðardóttir, Þórunn Guðmundsdóttir, Þráinn Hjálmarsson, Þuríður Jónsdóttir og Örvar Smárason.

Ríkisútvarpið er ein mikilvægasta menningarstofnun þjóðarinnar. Boðið er upp á fjölbreytt menningarefni í öllum miðlum þess og stuðlað að fjölbreyttri listumfjöllun. Að undanförnu hefur menningarefni verið sett framar í forgangsröðina hjá RÚV, m.a. með því að leggja aukna áherslu á framleiðslu á leiknu efni.

Nánari upplýsingar um einstök verðlaun á vegum RÚV

Tónskáldasjóður Ríkisútvarpsins og STEFs

Styrkir til tónsmíða

Þann 3. apríl 2017 var undirrituð stofnskrá nýs sjóðs, Tónskáldasjóðs RÚV og STEFs. Að undirskrift komu þau Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, Guðrún Björk Bjarnadóttir framkvæmdastjóri STEFs, Þórunn Gréta Sigurðardóttir formaður TÍ og Jakob Frímann Magnússon, formaður FTT.

Hinn nýi sjóður leysti tvo eldri sjóði af hólmi; Tónskáldasjóð RÚV, sem verið hafði í vörslu Ríkisútvarpsins og starfræktur í meira en 60 ár og Tónskáldasjóð Rásar 2, sem verið hafði í vörslu STEFs.

Markmið sjóðsins er að stuðla að frumsköpun og útbreiðslu íslenskrar tónlistar, m.a. með því að veita fjárstuðning til höfunda fyrir tónsmíði og heildstæð verk. Þannig vilja þeir sem að sjóðnum standa skjóta styrkari stoðum undir tónlistarlíf í landinu. Sjóðurinn er fjármagnaður með framlagi frá RÚV og með hluta þeirra greiðslna sem RÚV greiðir í höfundarréttargjöld en RÚV er stærsti greiðandi þeirra gjalda hérlendis.

Við úthlutun hljóta metnaðarfyllri og yfirgripsmeiri verkefni forgang. Einnig er tilgangur sjóðsins að veita fjárstuðning við nýsköpun verka til flutnings í miðlum RÚV.

Stjórn sjóðsins skipa þrír aðilar; útvarpsstjóri sem er fulltrúi RÚV, auk aðila úr Félagi tónskálda og textahöfunda og Tónskáldafélagi Íslands. STEF tilnefnir seinni stjórnarmeðlimina tvo. Úthlutað er úr sjóðnum þrisvar á ári og fór fyrsta úthlutun hins sameinaða sjóðs fram í maí.

Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins

Verðlaun fyrir ritstörf

Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins hefur verið starfræktur síðan 1956. Styrkir eru veittir einum eða tveimur höfundum. Í stjórn sjóðsins eiga sæti fimm menn, einn skipaður af menntamálaráðherra og er hann formaður, tveir af Ríkisútvarpinu og tveir af Rithöfundasambandi Íslands. Það eru þau Bergljót S. Kristjánsdóttir, formaður  nefndarinnar, skipuð af menntamálaráðherra, Eiríkur Guðmundsson og Þorgerður E. Sigurðardóttir frá RÚV, Kristín Helga Gunnarsdóttir fyrir hönd Rithöfundasambands Íslands og Sölvi Björn Sigurðsson, verðlaunahafi síðasta árs.

Krókurinn

Viðurkenning fyrir framúrskarandi lifandi flutning

Rás 2 er íslenskt tónlistarútvarp og hefur frá stofnun verið ötul við að taka upp lifandi flutning. Upptökurnar eru hátt í fjögur hundruð og er allt þetta efni varðveitt í safni RÚV. Þetta er ekki einungis gott útvarpsefni heldur ómetanleg heimild um íslenska tónlist samtímans. Það er eitt helsta metnaðarmál Rásar 2 að sinna þessu hlutverki eins vel og kostur er.  Krókurinn er verðlaun Rásar 2, þakklætisvottur til alls þess tónlistarfólks sem rásin hefur átt gott samstarf við. Með Króknum vill Rás 2 verðlauna sérstaklega það sem vel er gert. Krókurinn var fyrst veittur fyrir ári síðan.

Orð ársins

RÚV, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Mímir, félag stúdenta í íslensku og almennum málvísindum við Háskóla Íslands, standa saman að því að leyfa landsmönnum að velja orð ársins í netkosningu á rúv.is. Markmiðið með því að velja orð ársins er að draga fram þau orð sem einkenndu þjóðfélagsumræðuna á árinu. Orðið þarf að hafa verið áberandi eða endurspegla samfélagið á einn eða annan hátt. Það þarf að falla að málkerfinu og það mega ekki vera vandkvæði með rithátt þess, beygingu eða framburð. Orð getur líka komist á lista ef orðmyndunin er áhugaverð.