RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Með okkar augum fær tilnefningu til hvatningarverðlauna ÖBÍ

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands verða afhent í ellefta sinn í dag. RÚV er meðal þeirra sem hljóta tilnefninga til verðlauninna í þetta skipti fyrir að kynna og sýna þættina Með okkar augum á besta áhorfstíma.

Tilgangur verðlaunanna er að varpa ljósi á þá sem hafa með jákvæðum hætti stuðlað að einu samfélagi fyrir alla. Verðlaunin eru veitt í þremur flokkum, einstaklinga, fyrirtækja/stofnana og flokki umfjöllunar/kynningar. Verndari verðlaunanna er forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson sem afhendir þau á Hildon Nordica hótelinu klukkan 14:00 í dag. Katrín Oddsdóttir, hæstaréttarlögmaður og starfsmaður málefnahóps ÖBÍ um sjálfstætt líf, og Bergþór Grétar Böðvarsson sem fékk verðlaunin í flokki einstaklinga 2011 munu halda ávörp. Eftirfarandi eru tilnefnd til verðlaunanna.

Í flokki einstaklinga

Guðmundur Sigurðsson – fyrir eljusemi við að kynna kyndilhlaup lögreglumanna í tengslum við Special Olympics íþróttaviðburði.

Hlín Magnúsdóttir – fyrir brennandi áhuga og frumkvæði að fjölbreyttum kennsluaðferðum, meðal annars með sérstakri fésbókarsíðu.

Stefanía Þórey Guðlaugsdóttir – fyrir umhyggju, stuðning og hjálpsemi.  

Í flokki fyrirtækja/stofnana:

Crossfit XY – fyrir þá sýn að Crossfit sé fyrir alla, að allir sem koma þangað að æfa séu jafningjar.

Grófin geðverndarmiðstöð – fyrir að vinna að því að rjúfa þögnina og sporna gegn fordómum um geðsjúkdóma. 

TravAble – fyrir hönnun og þróun á smáforriti með upplýsingum um aðgengi á ýmsum opinberum stöðum.

Í flokki umfjöllunar/kynningar:

Eistnaflug rokkhátíð – fyrir að vekja athygli á mikilvægi þess að ræða um andlega líðan og geðheilsu.

Jafnrétti fyrir alla – fyrir verkefni sem snýr að aðgengi karla með þroskahömlun að jafnréttisstarfi. 

RÚV – fyrir að kynna og sýna þættina með okkar augum á besta áhorfstíma.