RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Hátíðardagskrá RÚV

Mynd með færslu
Það verður fjölbreytt og vönduð hátíðardagskrá fyrir alla aldurshópa í bæði útvarpi og sjónvarpi hér á RÚV yfir hátíðarnar.

Í sjónvarpi er lögð sérstök áhersla á að hafa á vandað og skemmtilegt dagskrárefni fyrir alla fjölskylduna, framúrskarandi erlendar kvikmyndir og metnaðarfullt menningarefni.

Af einstakum dagskrárliðum ber hæst að nefna beinar útsendingar frá tónleikum Sigur Rósar á tónlistarhátíðinni Norður og niður í Hörpu þann 30. desember og frá jólatónleikunum Gloomy Holiday í Hörpu 27. desember, þar sem margt af dáðasta tónlistarfólki landsins kemur fram og flytur þekkt jólalög í nýjum búningi.  Þá er frumsýning í sjónvarpi á íslensku kvikmyndunum Hjartasteini á jóladag, Eiðnum á nýársdag auk heimildarmyndarinnar Reynis sterka, einnig á nýársdag. Sérstök áramótaútgáfa Vikunnar með Gísla Marteini, Árið með Gísla Marteini, verður sýnd í beinni útsendingu þann 29. desember og árlegir sjónvarpsviðburðir eins og Íþróttamaður ársins og Áramótaskaupið verða á sínum stað og auk þess verður sérstakt Krakkaskaup annað árið í röð. Einnig verða Óskarsverðlaunamyndirnar LA LA Land og Room á dagskrá á annan í jólum og Moonlight á nýársdag. Á vefnum ruv.is verður sérstök hátíðardagskrá þar sem sýndar verða nokkrar af vinsælustu þáttaröðum okkar í heilu lagi.

Vinsælasti dagskrárliður í íslensku útvarpi er þögnin sem ríkir á Rás 1 síðustu fimmtán mínúturnar áður en jólin eru hringd inn kl. 18 á aðfangadag. Hátt í  fjórðungur þjóðarinnar hefur stillt á Rás 1 þessar mínútur. Aftansöngur frá Dómkirkjunni kl. 18 á aðfangadag er sömuleiðis með vinsælustu dagskrárliðum í íslensku útvarpi ásamt jólakveðjunum sem hafa styrkt sig æ meir í sessi á undanförnum árum. Þær eru nú sendar út að kvöldi 22. desember og alla Þorláksmessu. Rás 1 heldur í allar þessar hefðir og sömuleiðis þær að rifja upp fréttir ársins á gamlársdag, senda út níundu sinfóníu Beethovens á nýrársdagsmorgun og þannig mætti áfram telja. En í hátíðardagskrá Rásar 1 er einnig að finna brakandi ferskt efni um allt milli himins og jarðar. Við forvitnumst um hinsegin jól og heyrum jólasöngleik Improv Ísland, kynnumst Dísellu Lárusdóttur, sópransöngkonu við Metropolitan óperuna, og fylgjumst með Bandaríkjamanni leita að íslenskum hálfbróður sínum sem hann hefur aldrei hitt. Við hlýðum á jólatónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hljóðritun frá tónleikum sænska djasspíanistans Jans Lundgrens í Hörpu, auk þess að heyra mikið af annarri tónlist. Allt þetta og miklu meira í jóladagskrá Rásar 1.

Það verður af nógu að taka á Rás 2 yfir hátíðarnar. Árlegir Þorláksmessutónleikar verða að þessu sinni sendir út beint klukkan 22 frá Hard Rock Café og koma fram Jónas Sigurðsson og Ritvélar framtíðarinnar. Að morgni aðfangadags fylgir Hrafnhildur Halldórsdóttir hlustendum og fær til sín gesti og heyrir í fólki um allt land. Þau Bergsson og Blöndal taka svo við með þátt sinn Ilmandi í eldhúsinu og fylgja ykkur í snúningum dagsins. Síminn og Facebook verða opinn fyrir jólakveðjum Íslendinga sem staddir eru erlendis. Ásgeir Eyþórsson og Hulda Geirsdóttir fylgja landsmönnum í gegnum jólahaldið á aðfangadagskvöld með ljúfum jólatónum héðan og þaðan úr heiminum. Á jóladag tekur Stefán Pálsson svo við með þátt sinn Jóla hvað...! og spyr sérfræðinga spjörunum úr um allt sem tengist jólahaldinu. Fluttir verða jólatónleikar Eivarar Pálsdóttur sem voru í Hörpu og spurningaþátturinn Nei hættu nú alveg, í umsjón Vilhelms Antons Jónssonar verður á dagskrá. Gestur Matta á jóladagskvöld er svo tónlistarmaðurinn Bjartmar Guðlaugsson.  Á annan dag jóla heilsa þau Viktoría Hermannsdóttir og Sólmundur Hólm hlustendum og koma ykkur í gírinn fyrir jólaboð dagsins. Eftir hádegi verður skipt norður á Akureyri í Norðurstofuna þar sem Birna Pétursdóttir heimsækir m.a. leikara, presta og bændur á bæði Norður- og Austurlandi. Fluttir verða jólatónleikar stórsveitar Samma þar sem sérstakir gestir voru Valdimar Guðmundsson og Bryndís Jakobsdóttir og Andrea Jónsdóttir leiðir hlustendur inn í kvöldið. Að morgni gamlársdags stýra grínistarnir Björn Bragi og Jóhann Alfreð Skotkökunni og þær Björg Magnúsdóttir og Sigríður Dögg Auðunsdóttir taka svo við með þáttinn Á síðustu stundu þar sem Manneskja ársins verður meðal annars útnefnd.