RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Hallalaus rekstur RÚV og mesta skuldalækkun frá upphafi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ónafngreindur höfundur Staksteina-dálks Morgunblaðsins hefur mikinn áhuga á RÚV. Það er gleðilegt og í raun í takt við áhuga þorra landsmanna, sem nota RÚV dag hvern og þykir vænt um það.

Dálkahöfundi á þó til að skjöplast nokkuð þegar staðreyndir eru annars vegar og því er bæði sjálfsagt og skylt að leiðrétta misskilning.  

Ritari Staksteina virðist hafa lesið árshlutareikninga RÚV á hvolfi og staðhæfir ranglega að mikið sukk sé í rekstrinum. Staðreyndin er sú að allar kennitölur í ársreikningum RÚV síðustu ár benda í sömu átt: Mikill og góður árangur hefur orðið í fjármálastjórn og efnahag RÚV. Rekstur er og hefur verið hallalaus og í samræmi við áætlanir allt frá hagræðingaraðgerðum árið 2014 og það þrátt fyrir að Alþingi hafi ítrekað lækkað útvarpsgjaldið og þrengt mjög að auglýsingasölu RÚV á undanförnum árum. Þá munu aðgerðirnar sem gripið hefur verið til á tímabilinu skila verulegri lækkun skulda – þeirri mestu í sögu RÚV. Á sama tíma hefur eiginfjárhlutfall hækkað jafnt og þétt. Þetta eru staðreyndir málsins.

Staksteinaritari  hefur þó ekki áttað sig á þessum stórfelldu umbótum í rekstri og fjárhag en spyr hver hafi leyft Ríkisútvarpinu að safna öllum þessum skuldum. Svarið við því er einfalt: Það gerði Alþingi Íslendinga, sem ákvað 2007 að RÚV skyldi axla ábyrgð á gömlum lífeyrisskuldbindingum ríkisstofnunar sem þá hafði verið lögð niður. Ríkið ákvað því í raun að losa sig við skuld upp á nokkra milljarða með því að leggja skuldina inn í nýtt fyrirtæki. Nýstofnað fyrirtæki hóf því rekstur 2007 með ókleifa skuldabyrði og hrunárin léku RÚV, eins og marga aðra, grátt.  

Þannig er ljóst að stjórn RÚV og stjórnendur síðustu ár stofnuðu ekki til þeirra skulda sem ritari Staksteina fjallar um en hópurinn leiðir á hinn bóginn hina miklu skuldalækkun. Sá árangur hefur verið kynntur í opinberum árshlutauppgjörum og endanlegt uppgjör mun sjást í ársreikningi RÚV fyrir árið 2017 sem birtur verður snemma árs 2018. Þessi sami hópurhefur að auki tryggt ábyrgan og hallalausan rekstur RÚV síðastliðin ár.

Nokkrar staðreyndir er varða kennitölur og rekstur RÚV síðustu ár:

• Um mitt ár 2014, voru skuldir RÚV 6,6 milljarðar króna. Þá var eiginfjárhlutfall 5,5%.

• Farið var í hagræðingaraðgerðir til að taka á halla í rekstri og lækkun útvarpsgjalds.   

• Frá þeim tíma hefur verið hagnaður af rekstri RÚV og allar áætlanir staðist.

• Í nýjasta ársreikningi RÚV kemur fram að eiginfjárhlutfall um síðustu áramót (31. des. 2016) var komið upp í 23,8%.

• Til að bregðast við yfirskuldsetningu RÚV frá gamalli tíð var farið í þróun lóðar og byggingarréttur var seldur. Sú aðgerð hefur gengið vel og leiðir til mestu skuldalækkunar í sögu RÚV. Aðgerðin mun skila RÚV um 2,2 milljörðum í tekjur. Hagnaður af aðgerðinni nýtist til að bæta eiginfjárhlutfall enn frekar.

• Rekstur RÚV er sem fyrr hallalaus og allar áætlanir gera ráð fyrir áframhaldandi hallalausum rekstri.

 

Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri.

 

16.12.2017 kl.13:50
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, Í umræðunni