RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Fjölbreytt og spennandi vetrardagskrá RÚV 2017-2018

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vetrardagskrá RÚV er nú aðgengileg á kynningarvef (www.ruv.is/kynning). Í öllum miðlum er menningarefni í öndvegi. Áhersla er á innlent gæðaefni, þjónusta við börn og ungmenni er efld og umfjöllun um fréttir og samfélag dýpkuð.

Vetrardagskrá sjónvarps

Við tökum vetrinum fagnandi á RÚV með alls kyns nýjungum í dagskránni í bland við gamla félaga. Kynningarvefinn má sjá hér.

Að venju verður áhersla lögð á vandaða innlenda dagskrá, nýtt íslenskt leikið efni og fjölbreytt menningarefni ásamt vænum skammti af skemmtun, fræðslu, íþróttum og barnaefni. Haft verður að leiðarljósi að svara eftirspurn yngri áhorfendahópa og tryggja meira úrval efnis við þeirra hæfi. Á RÚV verður eitthvað í boði fyrir alla og nóg af nýju efni.

Í byrjun september hófust sýningar á Loforðum, nýrri leikinni þáttaröð fyrir alla fjölskylduna eftir þá Guðjón Davíð Karlsson og Braga Þór Hinriksson. Fjörskyldan er nýr bráðfjörugur skemmtiþáttur sem verður á laugardögum í vetur. Hann hefur göngu sína síðla í október. Þar fylgjumst við með fjölskyldum etja kappi í alls kyns bráðfyndnum spurningaleikjum og þrautum undir dyggri stjórn tónlistarmannsins Jóns Jónssonar. Félagarnir Fannar og Benni snúa aftur á skjáinn í september í þættinum Hásetum. Þar fylgjumst við með ævintýrum þeirra og lífsbaráttu um borð í íslenskum togara. Í október hefur svo göngu sína áhugaverð þáttaröð í umsjá Sigríðar Halldórsdóttur, Ævi, þar sem fjallað er um sjö æviskeið mannsins frá fæðingu til hinstu hvílu. Þá er RÚV stolt af því kynna til sögunnar nýjan fréttaskýringaþátt, Kveik, sem fer í loftið í október. Nýir þættir Samfélagsmiðlar hefja göngu sína í mars.

Í metnaðarfullri jóladagskrá RÚV verður m.a. boðið upp á verðlaunakvikmyndina Hjartastein, sem farið hefur sigurför um erlendar kvikmyndahátíðir og fengið einróma lof gagnrýnenda, sem og stórmynd Baltasars Kormáks, Eiðinn. Það er svo engin jólahátíð án Áramótaskaups sem verður á sínum stað að venju.

Á nýju ári rennur upp tími Söngvakeppninnar sem verður glæsilegri og metnaðarfyllri með hverju árinu. Hápunktur keppninnar verður í Laugardalshöll laugardagskvöldið 3. mars.

Enn meiri kraftur verður settur í að sinna yngri kynslóðunum á komandi vetri þar sem KrakkaRÚV og RÚVnúll leggja metnað sinn í að uppfylla allar helstu þarfir og óskir yngri áhorfenda. Krakkafréttir verða á sínum stað ásamt Stundinni okkar þar sem Sigyn Blöndal hittir krakka um allt land, býður upp á stórhættulega spurningakeppni og fræðir og skemmtir.

Nú sem fyrr má treysta á vandaða íþróttaumfjöllun á RÚV þar sem öllum helstu hápunktum í íþróttaheiminum verða gerð góð skil, með sérstakri áherslu á íslensk landslið og afreksfólk. EM karla í körfubolta verða gerð góð skil í september, fylgst verður með karlalandsliðinu í knattspyrnu keppast um að komast í lokakeppni HM og handboltalandslið kvenna verður í eldlínunni í undankeppni fyrir EM kvenna. HM kvenna í handbolta verður á dagskrá í desember, EM karla í handbolta verður sýnt í janúar og vetrarólympíuleikar og vetrarólympíumót fatlaðra sýnt í febrúar og mars.

RÚV leitast við að vera í sérstöðu þegar kemur að beinum útsendingum frá hvers kyns menningar-, lista- og dægurviðburðum og verður engin breyting þar á í vetur. Tónninn var gefinn með Klassíkinni okkar í byrjun hausts þegar boðið var upp á óperuveislu í beinni útsendingu úr Hörpu. Bein útsending frá lokasýningu leikverksins Með fulla vasa af grjóti í byrjun október verður ekki minni viðburður. Þá skipa upptökur frá alls kyns tónlistarviðburðum stóran sess í dagskránni í vetur. Friðrik Dór, Retro Stefson, Nýdönsk og fleiri snjallir listamenn koma þar meðal annarra við sögu.

Heimildamyndir og heimildaþættir munu að venju verða áberandi í dagskrá RÚV í vetur.  Dýralífsþættir verða á sínum stað, skyggnst verður inn í líf kjarnakonunnar Jóhönnu Sigurðardóttur, Geirfinnsmálið kannað í þaula, fylgst með íslenskum torfæruköppum í svaðilför um Bandaríkin og margt margt fleira.

Áfram verður rík áhersla lögð á vandað erlent gæðaefni frá öllum heimshornum. Breskt og norrænt leikið efni skipar stóran sess í dagskránni. Af nýjum áhugaverðum þáttaröðum má nefna London Spy, Dark Angel, Lucky Man, Herrens Veje, Jordskott, Berlin Station og Gomorra. Vinsælir góðkunningjar halda svo áfram, eins og Brúin, Weissensee saga, Poldark og Barnaby. Undir heitinu Bíóást mun RÚV svo sýna vel valdar og margrómaðar kvikmyndir sem hafa valdið straumhvörfum í kvikmyndasögunni, til dæmis The Birds, Top Gun, The Pianist og Home Alone.

Ekki má svo gleyma gömlum heimilisvinum sem halda áfram á RÚV: Kiljan, Menningin, Silfrið, Landinn, Gettu betur, Vikan með Gísla Marteini, Paradísarheimt og fleiri góðir þættir verða á sínum stað í vetur. Útsvar heldur einnig áfram en í ár taka nýir umsjónarmenn, þau Sólmundur Hólm og Guðrún Dís Emilsdóttir, við keflinu af Sigmari og Þóru sem kveðja eftir 10 ár í Útsvarinu.

Vetrardagskrá Rásar 1

Rás 1 er einn helsti burðarásinn í starfsemi Ríkisútvarpsins og einstök í hópi íslenskra útvarpsstöðva. Rás 1 svalar forvitni hlustenda um margbrotna heima menningar og samfélags allan sólarhringinn, alla daga ársins. Hún veitir innsýn í það sem er efst á baugi en þar eru leitaðar uppi sögur og sjónarmið sem ekki rata í fyrirsagnir fréttatímanna. Á Rás 1 er lagt kapp á að fjalla um menningu og raunar allt mannlíf út frá nýjum og áhugaverðum sjónarhornum. Rætt er við fólk sem þú vilt vita meira um, sagðar sögur af konum og körlum sem þú vissir ekki að væru til og aflað heimilda um atburði sem þú gast ekki ímyndað þér að hefðu átt sér stað, skildir ekki eða hafðir ekki uppgötvað að væru áhugaverðir.

Í vetur er ástæða til að vekja sérstaka athygli á nýjum þáttaröðum í dagskrá Rásar 1. Hvað er að heyra? er spurningaþáttur um klassíska tónlist í umsjá Arndísar Bjarkar Ásgeirsdóttur en þar eigast við lið skipuð tónlistarmönnum. Þættirnir verða á dagskrá á laugardögum kl. 17 fram á aðventu.

Í byrjun janúar hefst svo fyrsta þáttaröðin af fimm um sögu fullveldistímans. Fyrsta röðin fjallar um menningarsögu fullveldisins en í hinum fjórum er fjallað um stjórnmálasögu fullveldisins, hversdagssögu þess, helstu fréttamálin og síðan verður huldufólk þessa tímabils í íslenskri sögu leitað uppi, fólkið sem hafði áhrif á líf okkar og sögu en fáir þekkja. Á laugardagsmorgnum verða heimildaþættir um ýmis mál sendir út kl. 10.15, eins og undanfarin misseri, en meðal umfjöllunarefna eru Landspítalinn, Lesbos, Tinni og Tálknafjörður.

Óðinn Jónsson, Björn Þór Sigbjörnsson og Vera Illugadóttir fjalla áfram um helstu fréttamál á Morgunvaktinni sem hefst kl. 6.50. Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræðir við áhugavert fólk í Segðu mér á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum kl. 9 og Margrét Blöndal fer á Stefnumót á sama tíma á mánudögum. Á föstudögum kl. 9 skoðar Vera Illugadóttir fréttir líðandi stundar Í ljósi sögunnar. Hlustendur geta verið Á reki með KK á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum kl. 10.15 og á föstudögum stýrir Svanhildur Jakobsdóttir Óskastundinni. Mannlegi þátturinn og Samfélagið verða áfram með fjölbreytta umfjöllun um menn og málefni á líðandi stund. Lestin og Víðsjáin halda sömuleiðis áfram að upplýsa hlustendur um menningu á breiðum grundvelli síðdegis alla virka daga.

Útvarpsleikhúsið leggur áfram áherslu á íslensk verk í vetur eftir höfunda á öllum aldri fyrir fólk á öllum aldri. Ný barna- og fjölskylduleikrit verða nú bæði um jól og páska.

Helgarþættir á borð við Flakk Lísu Pálsdóttur, Orð um bækur með Jórunni Sigurðardóttur, Bók vikunnar, Orð af orði með Önnu Sigríði Þráinsdóttur halda göngu sinni áfram. Bókmenntalestrar halda áfram á kvöldin og verða auk þess aðgengilegir í Hlaðvarpinu.

Útvarp KrakkaRÚV hóf svo göngu sína á Rás 1 í september á mánudögum, þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum kl. 18.30. Þar verður fjallað um fréttir vikunnar, listir og ævintýri, heiminn allan og á fimmtudögum verður bein útsending með skemmtilegum krökkum. Umsjónarfólk er Ingibjörg Fríða Helgadóttir, Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir, Jóhannes Ólafsson, Sigyn Blöndal og Sævar Helgi Bragason.

Deilt með tveimur heitir svo Tónlistarhátíð Rásar 1 í Hafnarhúsi 28. október. Fjórir tónlistarmenn völdu sér tvo listamenn til samstarfs hver og afraksturinn eru fernir tónleikar með frumfluttum verkum eftir íslensk tónskáld. Tónleikarnir eru sendir út í beinni á Rás 1 og í myndstreymi á RÚV.is. Tónlistarmennirnir og verkin eru kynnt í fjórum þáttum sem sendir verða út á Rás 1 í október.  

Rás 1 heldur þannig áfram að bjóða upp á fjölbreytilegt efni fyrir forvitið fólk á öllum aldri.

Vetrardagskrá Rásar 2

Íslensk tónlist er hjarta Rásar 2. Meginhlutverk Rásarinnar er að fylgjast með og sinna íslenskri tónlist. En það er ekki bara hjartað sem heldur henni á lífi. Rás 2 er öflugt dægurmálaútvarp með puttann á púlsinum í þjóðmálum og menningu.

Morgunútvarpið er frá sjö til tíu á morgnana. Þátturinn er nú í umsjón Atla Más Steinarssonar, Sigmars Guðmundssonar og Sigríðar Daggar Auðunsdóttur. Þetta er snarpur, beittur og líflegur morgunþáttur. Mattthías Már Magnússon tekur svo við með Popplandið fram að hádegisfréttum. Eftir fréttir tekur Dagvaktin við. Þátturinn er í umsjón þeirra Sölku Sólar Eyfeld og Þórðar Helga Þórðarsonar (Dodda litla). Dagvaktin er tónlistarþáttur þar sem lögin við vinnuna eru í aðalhlutverki en kryddaður með hressilegum dagskrárliðum eins og þáttastjórnendum er einum lagið. Síðdegisútvarpið hefur tekið nokkrum breytingum. Það er nú frá 16 til 19 með fréttum og Spegli innanborðs. Andri Freyr Viðarsson hefur bæst í hópinn og sér um þáttinn ásamt Björgu Magnúsdóttur og Guðmundi Pálssyni.

Tvær nýjar þáttaraðir verða á kvölddagskránni. Iðnaðarrokk er þáttur í umsjón rokkarans Flosa Þorgeirssonar. Hann veltir fyrir sér iðnaðarrokki, straumum og stefnum og skoðar þessa tónlistarstefnu út frá ýmsum hliðum með augum indí-rokkarans. Þátturinn er á dagskrá frá september til miðs nóvember á miðvikudagskvöldum kl. 19.25. Sigga og Lolla – Spilið þið eitthvað? er þáttur um konur í tónlist, alls kyns konur í alls kyns hlutverkum, lagahöfunda, flytjendur, hljóðfæraleikara o.s.frv. Þátturinn er á dagskrá í október og nóvember á sunnudagskvöldum kl. 19.20.

Á undanförnum árum hefur Rás 2 sífellt aukið umfjöllun og beinar útsendingar frá hinum ýmsu viðburðum. Oftast eru þessir viðburðir tengdir íslenskri tónlist. Rás 2 er sannkallað viðburðaútvarp. Í ár sinnir Rás 2 Iceland Airwaves, Músiktilraunum, Secret Solstice, Bræðslunni, Sónar og fjölmörgum öðrum tónlistarhátíðum og viðburðum. Auk þess sem hlustendum er boðið upp á beinar útsendingar og upptökur af helstu tónlistarhátíðum landsins þá er með þessu verið að skrásetja íslenska tónlistarsögu.

Fréttastofan í vetur

Fréttastofan færir landsmönnum helstu tíðindi innanlands og utan, alla daga ársins, allan sólarhringinn.  Á vefnum, í útvarpi og í sjónvarpi. Engar stórvægilegar breytingar eru áformaðar á fréttaþjónustu RÚV á komandi ári. 

Kveikur, nýr vikulegur fréttaskýringaþáttur, hefst í sjónvarpinu þriðjudaginn 17. október kl. 21.15. Þátturinn er svar við auknum kröfum um rannsóknarblaðamennsku og ítarlegar fréttaskýringar, innlendar sem erlendar. Ritstjóri er Þóra Arnórsdóttir en aðrir umsjónarmenn eru Ingólfur Bjarni Sigfússon, Helgi Seljan og Sigríður Halldórsdóttir.    

Kastljós er aftur komið á fullt skrið eftir sumarfrí með breyttu sniði. Það er fréttatengdur viðtalsþáttur í beinni útsendingu um innlend og erlend tíðindi og þar sem neytendamál hafa fengið fastan sess. Menningin verður áfram á sínum stað með vandaða og fjölbreytta umfjöllun. 

Fréttaskýringaþátturinn Spegillinn heldur áfram á sama tíma og áður á Rás 1 og Rás 2 alla virka daga.

Landsmenn ganga að kjörborðinu 26. maí 2018 og kjósa sér fulltrúa í sveitarstjórnakosningum. Fréttastofan mun í aðdraganda kosninganna fjalla ítarlega um framboð, málefni og sveitarfélög í öllum miðlum RÚV. Að kvöldi kjördags verður að venju viðamikil útsending þar sem fylgst verður með úrslitum kosninganna.

Krakkar láta ljós sitt skína á KrakkaRÚV

Sjónvarpsdagskráin verður mjög fjölbreytt. Í boði verða yfir 40 þáttaraðir af talsettu barnaefni og verða traustir vinir eins og Stundin okkar og Krakkafréttir á sínum stað.

Jóladagatalið í ár er norskt og ber heitið Snjókoma (Snöfall) og sló það öll áhorfsmet í Noregi síðustu jól. 

KrakkaRÚV fjallar einnig ítarlega um Skólahreysti, Samfés, Upptaktinn, Skrekk, Barnamenningarhátíð í Reykjavík og fleiri viðburði sem skipta börn máli.

Útvarp KrakkaRÚV verður á dagskrá á Rás 1 mánudaga til fimmtudaga. Þar fjalla Sævar Helgi Bragason, Ingivjörg Fríða Helgadóttir, Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir og Sigyn Blöndal um allt milli himins og jarðar. Það koma einnig fjölmargir krakkar við sögu.

Á KrakkaRÚV.is má nálgast alla barnaafþreyingu á einum stað ásamt skemmtilegum leikjum og skapandi þrautum.

Markmið KrakkaRÚV er að gleðja börn, fræða og hvetja til skapandi verka.

#krakkargeta