Zeman sigraði í fyrri umferð forsetakosninga

14.01.2018 - 00:26
epa06436320 Czech President Milos Zeman (R), who runs for re-election as Czech president, and his wife Ivana Zemanova (L) attend a press conference during the first round of the presidential elections, at his election headquartes in Prague, Czech Republic
 Mynd: EPA-EFE  -  RESPEKT POOL
Milos Zeman, Tékklandsforseti, hlaut flest atkvæði í fyrri umferð forsetakosninganna í Tékklandi og mætir efnafræðiprófessornum Jiri Drahos, sem varð í öðru sæti, í seinni umferðinni. Zeman, sem gefur sig út fyrir að vera vinur litla mannsins og gerir mikið úr nauðsyn þess að verja Tékka og Tékkland gegn innflytjendum og flóttafólki, einkum múslímum, fékk tæp 39 prósent atkvæða.

Hann er sagður hliðhollur Rússum, og þegar hann fór á kjörstað stökk að honum berbrjósta aktívisti úr Femen-hreyfingunni og kallaði hann „hóru Pútíns". Zeman talar mjög gegn „bákninu í Brussel" og því sem hann segir gjörspillt kerfi og elítu í Tékklandi og Evrópu, og berst fyrir því að Evrópusambandið afnemi viðskiptahindranir og aðrar refsiaðgerðir gegn Rússum.

Keppinautur hans í seinni umferðinni, Jiri Drahos, fékk tæplega 27 prósent atkvæða. Hann er fyrrverandi formaður tékknesku vísindaakademíunnar og yfirlýstur Evrópusinni, sem lofar að beita sér fyrir því að tryggja að Tékkland haldi traustum tengslum við Vestur-Evrópu, og sneiðir þannig að Rússlandstengingu Zemans.

Þótt miklu hafi munað á þeim Zeman og Jiri í fyrri umferðinni telja stjórnmálaskýrendur að mjótt geti orðið á munum í hinni síðari, sem fram fer 26. og 27. janúar. Segja þeir að Jiri geti reitt sig á stuðning margra þeirra frambjóðenda sem heltust úr lestinni í fyrri umferðinni.

Zeman var kjörinn forseti Tékklands í mars 2013 og var forsætisráðherra landsins á árunum 1998 til 2002, í forsetatíð Vaclavs Havels. Zeman er jafnframt fyrsti þjóðkjörni forseti Tékklands, forverar hans, þeir Havel og Vaclav Klaus, voru báðir kosnir af þinginu. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV