Yfirgaf þingið fyrir fund með ASÍ

13.11.2014 - 11:02
Mynd með færslu
Þingmenn stjórnarandstöðu deildu harkalega á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra við upphaf þingfundar í dag. Þeir gagnrýndu hann fyrir að hafa farið af þingfundi í gær, þegar rædd var skýrsla hans um skuldaleiðréttingu, án þess að láta nokkurn mann vita.

Forsætisráðherra, fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra funduðu seinni partinn í gær með fulltrúum Alþýðusambandsins og ræddu þar kjaramál. Þessar upplýsingar virðast ekki hafa skilað sér til þingheims því stjórnarandstæðingar spurðu ítrekað við upphaf þingfundar í morgun hvaða fundur væri mikilvægari en fundur á Alþingi.

Sýni Alþingi lítilsvirðingu
Helgi Hjörvar þingflokksformaður Samfylkingarinnar sagði við upphaf þingfundar klukkan hálfellefu að með fjarveru sinni í gær á þingfundi hafi forsætisráðherra ekki aðeins sýnt þingmönnum óvirðingu heldur hafi hann sýnt Alþingi lítilsvirðingu. Forsætisráðherra hafi yfirgefið sína eigin umræðu, skýrslu um skuldaleiðréttingu og það hafi komið þingmönnum í opna skjöldu, sérstaklega þar sem stjórnarandstaðan hefði samþykkt áður að forsætisráðherra myndi yfirgefa þinghúsið eftir að talsmenn flokka hefðu talað. Undir þetta tóku aðrir þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar.

Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis sagðist aðspurður ekki hafa aðrar skýringar en þær að forsætisráðherra hafi þurft að vera á fundi sem ekki var fyrirsjáanlegt áður en umræðan hófst.

„Viðvarandi hegðun hjá hæstvirtum forsætisráðherra“
Össur Skarphéðinsson spurði hvaða fundur hefði verið svo mikilvægur að hann væri mikilvægari en stærsta mál ríkisstjórnarinnar, með fjarveru sinni hefði forsætisráðherra sýnt þinginu hroka og lítilsvirðingu.

„Þetta er viðvarandi hegðun hjá hæstvirtum forsætisráðherra," sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokksformaður Pírata, sem gagnrýndi að forsætisráðherra væri gjarn á að vera ekki viðstaddur mikilvægar umræður í þinginu. 

Helgi Hjörvar sagði stjórnarandstöðuþingmenn ekkert hafa frétt af brottför forsætisráðherra í gær fyrr en þeir óskuðu eftir nærveru hans í þingsal. „Okkur datt ekki annað í hug en að hann væri bara hér annars staðar í húsinu. Hann hafði laumast út."

„Þingið er með forsætisráðherrann í vinnu hjá sér," sagði Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri-grænna, sem gagnrýndi brotthvarf forsætisráðherra. Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, sagði að í umræðum um tillögu um að draga aðildarumsókn að ESB til baka hefði forsætisráðherra ekki verið á staðnum, heldur hefði hann verið að leika lukkudýr íshokkíliðs í Kanada. Hann spurði hvort fundahöldin í gær hefðu verið álíka brýn.

brynjolfur@ruv.is
jvh@ruv.is