Yfir 600 handtekin í Túnis

12.01.2018 - 06:18
Erlent · Afríka · Túnis · Stjórnmál
epa06430606 Tunisian security personnel gather near protesters during clashes, in Ettadhamen, Tunisia, 09 January 2018 (issued 11 January 2018). According to media reports, protests erupted in Tunisia last week after the government announced tax hikes and
 Mynd: EPA-EFE  -  EPA
Ríflega 600 manns hafa verið handtekin í mótmælum í Túnis síðustu daga og átökum í tengslum við þau. AFP fréttastofan hefur þetta eftir innanríkisáðuneytinu í Túnis. Mótmælt hefur verið í um eða yfir 20 borgum í landinu í vikunni. Mótmælin hafa ekki verið mjög fjölmenn en þeim mun harkalegri og víða hefur komið til blóðugra átaka milli mótmælenda og óeirðalögreglu. Mótmælendur hafa kveikt í bílum, kastað bensínsprengjum og grjóti en lögregla svarað með táragasi og kylfum.

Á miðvikudag handtók lögregla nær 330 manns fyrir þjófnað, gripdeildir, íkveikjur og ólögmæta lokun gatna og þjóðvega, samkvæmt innanríkisráðuneytinu. Á mánudag og þriðjudag voru samtals um 280 manns handtekin fyrir sömu sakir, en heimildir AFP herma að mun friðvænlegra hafi verið í borgum og bæjum Túnis í gær, fimmtudag. Það gæti þó verið lognið á undan storminum, því aðgerðasinnar sem barist hafa hvað harðast gegn fyrirhuguðum aðhaldsaðgerðum og skattahækkunum ríkisstjórnarinnar hafa blásið til fjöldamótmæla í dag, föstudag.

Jasmínubyltingin í Túnis 2011, þegar hinum þaulsætna forsetna Zine El Abidine Ben Ali var steypt af stóli með tiltölulega friðsamlegum hætti, er talin marka upphaf hins svokallaða arabíska vors. Til skamms tíma hefur verið afar friðsamlegt í landinu og er gjarnan litið til Túnis sem dæmis um hvernig hægt er að forðast blóðsúthellingar í kjölfar arabíska vorsins, en það hefur óvíða tekist jafnvel og þar. Viðvarandi og vaxandi fátækt og atvinnuleysi síðustu ára hefur þó kynt undir óánægjubál meðal almennings. Nýjustu efnahagsaðgerðir stjórnvalda, ráðgerðar í samráði við helsta lánardrottinn landsins, Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, ætla að reynast olía á þann eld, en í þeim felast skatta- og verðhækkanir samfara niðurskurði á opinberum útgjöldum og þar með þjónustu.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV