Walmart hækkar lágmarkslaun

11.01.2018 - 23:18
epa04888113 (FILE) A file photo dated 17 February 2009 showing a Wal-Mart store in Clinton, Maryland, USA. Giant US-based retailer Wal-Mart Stores on 18 August 2015 reported a 2nd quarter total revenue of 120.2 billion USD. The company said Q2 earnings
 Mynd: EPA  -  EPA FILE
Bandaríska verslanakeðjan Walmart tilkynnti í dag að lágmarkslaun í fyrirtækinu verði hækkuð upp í ellefu dollara á klukkustund, það er jafnvirði rúmlega ellefu hundruð króna.

AFP greinir frá og segir að ætlunin sé einnig að greiða hverjum starfsmanni keðjunnar þúsund dollara í bónus og lengja fæðingarorlof. Þá hyggst keðjan jafnframt veita starfsfólki fjárhagslegan stuðning í ættleiðingarferli. Tilefnið sé skattabreytingar sem samþykktar voru í Bandaríkjaþingi í desember. Skattabreytingarnar fólu í sér lækkun á fyrirtækjaskatti úr 35 prósentum í 21 prósent. AFP segir að ákvörðun stjórnenda Walmart nái til yfir einnar milljónar starfsmanna Walmart, Sam's Club og öðrum dótturfyrirtækjum. 

Keðjan staðfesti sömuleiðis í dag að nokkrum verslunum Sam's Club verði lokað en þær má finna víða um Bandaríkin. AFP fréttastofan greinir frá því að í sumum tilfellum hafi starfsfólkið fyrst heyrt af lokun verslananna þegar það mætti í vinnuna í morgun og kom að luktum dyrum. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV