Virkasta eldfjall Filippseyja rumskar

14.01.2018 - 07:29
Erlent · Hamfarir · Asía · eldgos
epa00772754 Toxic volcanic clouds of smoke and ash surround Mayon Volcano as seen from Legazpi City, southern Philippines on Saturday 15 July 2006. The Philippine Institute Institute of Volcanology and Seismology (Phivolcs) on Saturday urged residents
Mayon hefur gosið ríflega 50 sinnum frá árinu 1616. Þessi mynd er tekin 2006.  Mynd: EPA
Öskuský, reykjarmökkur og miklar drunur koma nú frá eldfjallinu Mayon á Filippseyjum annan daginn í röð. Þúsundir íbúa nærliggjandi bæja og sveita hafa flúið heimili sín síðan það tók að láta á sér kræla í gær, þegar þegar fjallið spúði ösku í tveggja og hálfs kílómetra hæð í skammvinnugosi. Stutt spýja gekk svo upp af því í morgun, hálfgert ör-gos sem stóð í um það bil fimm mínútur, og rak enn fleiri á flótta, enda óttast fólk að þetta sé aðeins byrjunin.

 

Brennisteinsfnyk leggur frá fjallinu, sem er í Albay-héraði, um 330 kílómetra suður af höfuðborginni Manila. Yfirvöld hvetja fólk til að halda sig minnst sex kílómetra frá fjallinu. Yfirvöld hafa lýst yfir viðbúnaðarstigi 2 og opnað fjöldahjálparstöðvar í skólum í öruggri fjarlægð, þar sem fólk getur leitað skjóls.

Mayon er eitt virkasta eldfjall Filippseyja. Það er tæplega 2.500 metra hátt og hefur gosið um 50 sinnum síðan 1616. Síðasta mannskæða gosið varð þar árið 2013, þá fórust fimm göngumenn og sjö til viðbótar slösuðust. 1993 fórust 79 manns þegar Mayon gaus en mannskæðasta gos þessa fjalls sem sögur fara af varð árið 1814. Þá fórust yfir 1.200 manns og heilt þorp grófst undir ösku og leir. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV