Vill „svissnesku leiðina“ í húsnæðismálum

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins segir mikilvægasta verkefni stjórnmálanna að viðhalda efnahagslegum stöðugleika í landinu og taka engar kollsteypur. Hann vill taka 20 milljarða af afgangi af ríkisrekstrinum og setja 10 milljarða í viðbótarfjármögnun til heilbrigðismála og 10 milljarða í menntamál og samgöngur.

Sigurður Ingi vill bregðast við húsnæðisvanda ungs fólks með því að fara „svissnesku leiðina“ þar sem fólk getur nýtt hluta af lífeyrissjóði sínum sem útborgun, en ekki bara til að greiða inn á eldri lán eins og tíðkast hér.

Þetta kemur fram í þættinum Forystusætið sem er á dagskrá RÚV í kvöld. Í þættinum segir Sigurður Ingi að hann sé tilbúinn að starfa með hvaða flokki sem er ef samstaða næst um málefni.  

Í þættinum sem sjá má hér að neðan er farið vítt og breytt yfir stefnumál Framsóknarflokksins fyrir komandi alþingiskosningar, stöðu Sigurðar Inga eftir klofninginn í Framsóknarflokknum og ýmislegt fleira. 

Fréttin hefur verið uppfærð. Í fyrri útgáfu kom fram að fólk gæti nýtt séreignarsparnaðinn sem fyrstu útborgun en Sigurður Ingi talaði um að nýta hluta lífeyrissjóðseignar sem fyrstu útborgun. 

Einar Þorsteinsson
Fréttastofa RÚV
Alþingiskosningar 2017: Forystusætið