Vill ekki vera rithöfundur, vill bara skrifa

Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar
 · 
Bókmenntir
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá

Vill ekki vera rithöfundur, vill bara skrifa

Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar
 · 
Bókmenntir
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá
Mynd með færslu
11.10.2017 - 16:00.Halla Þórlaug Óskarsdóttir.Víðsjá
Jónas Reynir Gunnarsson er handhafi Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar sem veitt voru í Höfða í dag. Stór olíuskip er þriðja verk hans sem kemur út á rúmum mánuði.

Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar eru veitt ár hvert í minningu Tómasar Guðmundssonar fyrir óprentað handrit að ljóðabók. Dagur B. Eggertsson afhenti verðlaunin í Höfða í dag. Fimmtíu og eitt handrit barst dómnefndinni sem skipuð er Úlfhildi Dagsdóttur, Þórarni Eldjárn og Illuga Gunnarssyni.

Verðlaunin í ár hlýtur Jónas Reynir Gunnarsson fyrir ljóðabókina Stór olíuskip sem kemur út í dag hjá Partusi.

Afkastamikill höfundur

Jónas hefur ekki setið auðum höndum undanfarið. Á rúmum mánuði koma út þrjú verk eftir hann, tvær ljóðabækur og ein skáldsaga. Áður hefur hann gefið út eina smásögu hjá Partusi, Þau stara á mig, árið 2015. Partus gefur einnig út nýju verkin þrjú.

„Þetta var ekki alveg planið hjá mér,“ segir Jónas Reynir, „en ég er mjög ánægður með að Stór olíuskip séu að koma út. Maður náttúrlega gerir ekki ráð fyrir að vinna verðlaun en ég var búinn að plana hinar tvær.“ Ljóðabókin Leiðarvísir um þorp kom út í byrjun september og skáldsagan Millilending kemur út í þessari viku. Jónas segist hafa unnið að Stórum olíuskipum og Millilendingu samhliða, en tónninn í þessum tveimur verkum er afar ólíkur.

„Ég er yfirleitt að vinna fleiri en eitt verk í einu,“ segir Jónas. „Þegar eitthvað verður erfitt er svo gott að flýja í hitt.“

Mynd með færslu
 Mynd: Halli Civelek / Partus  -  Partus
Skáldsagan Millilending kemur út hjá Partusi í þessari viku

Ljóðabókin var mikilvæg 

„Það var mjög ánægjulegt fyrir mig að skrifa þessa bók. Mér fannst ég vera að skrifa um tilfinningar sem stóðu mér nærri og mér leið vel þegar ég var að vinna í ljóðunum,“ segir Jónas. „Á tímabili gat ég eiginlega ekki farið að sofa án þess að vera búinn að vinna í þessari bók. Svo hvort sem hún hefði komið út eða ekki þá var hún mjög góð fyrir mig.“

„Mér líður ekki beinlínis eins og ég sé að vinna þegar ég er að skrifa,“ segir hann en bætir þó við að honum hafi ekki alltaf liðið þannig, heldur hafi vinnan við ljóðabókina skipt sköpum. „Mér fannst ég vinna hana svo náið sjálfum mér, að það breytti því hvernig ég hugsaði um tímann sem fer í að skrifa.“

Á ýmsum sviðum ritlistarinnar

Jónas Reynir, sem er bæði með BA- og MA-gráðu í ritlist, hefur komið við á fleiri vígvöllum ritlistarinnar en ljóða- og skáldsagnagerð því að hann hefur einnig skrifað leikrit, Við deyjum á mars, sem útskriftarnemendur Listaháskóla Íslands sýndu á vormánuðum 2016. Einnig hefur hann reynt fyrir sér við gerð kvikmyndahandrita.

„Mig langar ekkert sérstaklega til þess að vera rithöfundur, mig langar miklu frekar bara að skrifa, vera rithöfundur til að geta fengið að skrifa, frekar en öfugt. Við stöndum öll frammi fyrir þeirri spurningu hvernig við eyðum tíma okkar í þessu lífi sem við fáum, og maður finnur það þegar maður leggst á koddann hvort maður hefur eytt tíma sínum vel og mér líður þannig ef ég er að skrifa. Ekki vegna þess að ég haldi að það geri gagn, eða sé gott fyrir einhvern annan en sjálfan mig. Þetta er mjög sjálfelskt, en mjög mikilvægt fyrir mig.“

Viðtalið við Jónas Reyni var flutt í Víðsjá 11. október og má hlusta á í fullri lengd hér að ofan.