„Viljum ekki segja sögu eins og þessa aftur“

Harvey Weinstein
 · 
Konur gegn kynferðisáreitni
 · 
Kvikmyndir
 · 
Menningarefni
epa06254019 (FILE) - US film producer Harvey Weinstein attends the 2016 amfAR New York Gala at Cipriani Wall Street in New York, New York USA, 10 February 2016 (reissued 09 October 2017). According to media reports on 09 October 2017, Hollywood producer
 Mynd: EPA-EFE  -  EPA POOL

„Viljum ekki segja sögu eins og þessa aftur“

Harvey Weinstein
 · 
Konur gegn kynferðisáreitni
 · 
Kvikmyndir
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
12.10.2017 - 13:59.Freyr Gígja Gunnarsson
Fjöldi leikkvenna og fyrirsæta hefur undanfarna daga stigið fram og greint frá því hvernig þær voru áreittar kynferðislega af bandaríska kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein, manninum sem Meryl Streep kallaði Guð. Umfjöllun fjölmiðla varð til þess að hegðun Weinsteins sem Hollywood hafði kosið að líta fram hjá komst upp á yfirborðið. Um leið beinist kastljósið að Hollywood sem hefur komist upp með að taka ekki afstöðu til leikstjóra eins og Woody Allen og Roman Polanski.

Harvey Weinstein stendur einn eftir, rekinn frá eigin heimili, fyrirtæki, Bafta og sennilegast Akademíunni, valdamesti maðurinn í Hollywood árið 2012, að mati TIME. 

Umfjöllun New York Times og New Yorker afhjúpaði hann sem rándýr, mann sem nýtti vald sitt og auð og draum ungra kvenna um að koma sér á framfæri í kvikmyndabransanum til að fá sínu fram. „Harvey Weinstein var ekki rekinn fyrir að vera svín. Hann var rekinn fyrir að vera afhjúpaður sem svín,“ skrifar Jonah Goldber, blaðamaður Chicago Tribune.

Hegðun Weinsteins var nefnilega á flestra vitorði, hún rataði meðal annars í gamanþáttinn 30 Rock. 

„Ég er ekki hrædd við neinn í skemmtanaiðnaðinum,“ segir Jenny í atriðinu. „Ég hafnaði Harvey Weinstein í þrjú skipti af fimm.“

Seth McFarlene, sem stýrði Óskarsverðlaunahátíðinni 2013, hafði einnig orð á þessu þegar tilkynnt var hverjar væru tilnefndar sem leikkona ársins. „Til hamingju, þið þurfið ekki lengur að þykjast að vera hrifnar af Harvey Weinstein.“ Og allir hlógu. Svo þetta tæplega 20 ára gamla viðtal David Letterman við Gwyneth Paltow.

Paltrow sagði í viðtali við New York Times á þriðjudag að hegðun af þessu tagi gagnvart konum væri lokið. Hún komst í kynni við Weinstein þegar hún var ráðin til að leika eitt aðalhlutverkanna í Emmu, kvikmynd eftir bók Jane Austen. Weinstein bauð henni upp á hótelherbergi, fór að nudda axlirnar á henni og vildi fá hana inn í svefnherbergi með sér.

Paltrow sagði Brad Pitt, þáverandi kærasta sínum, frá uppákomunni og Pitt sagði Weinstein til syndanna. „Pitt sagði við Weinstein að hann myndi lemja hann ef hann gerði eitthvað þessu líkt við Paltrow aftur,“ hefur People eftir heimildarmanni sínum. Weinstein kom skömmu seinna að máli við Paltrow og varaði hana við því að segja fleirum frá þessum. „Ég hélt að hann myndi reka mig. “

Tveimur árum seinna fékk Paltrow Óskarsverðlaunin fyrir leik sinn í kvikmyndinni Shakespeare in Love, mynd sem Weinstein framleiddi. Brad Pitt lék í tveimur kvikmyndum sem Weinstein framleiddi eftir uppákomuna - Killling them Softly og Inglourious Basterds. Ekki er hins vegar vitað hvort Pitt hafi vitað að Weinstein áreitti einnig Angelinu Jolie, fyrrverandi eiginkonu hans.

Mynd með færslu
 Mynd: New York Magazine
Konurnar sem stigu fram og sögðu Bill Cosby hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi.

Mál Bill Cosby er af sama meiði. Hátt í sextíu konur hafa stigið fram og sakað hann um að hafa brotið gegn sér. 35 sögðu sögu sína í New Yorker.

Cosby var karl sem nýtti stöðu sína til að koma vilja sínum fram og vissi að engin gat komið og sakað Fyrirmyndaföðurinn um nauðgun. Frægðin hélt hlífðarskildi yfir honum. „Þetta var á allra vörum hjá bandarískum grínistum,“ sagði uppistandarinn Patton Oswald þegar mál Cosbys kom fyrst upp. 

Roman Polanski nauðgaði 13 ára gamalli stúlku inn á baðherbergi hjá Jack Nicholson og komst hjá fangelsisrefsingu með því að flýja land. „Þetta var ekki nauðgun-nauðgun,“ sagði Whoopi Goldberg.

Þegar Polanski var handtekinn í Sviss  fyrir átta árum og til stóð að framselja hann til Bandaríkjanna báðu yfir hundrað kvikmyndagerðarmenn að leikstjóranum yrði sleppt lausum. Handtakan væri hneisa. 

Meðal þeirra voru Martin Scorsese, Pedro Almodvar og David Lynch. Og Harvey Weinstein. Matthew Belloni, þá blaðamaður á Hollywood Reporter, skrifaði á bloggsíðu blaðsins að þessi mikli stuðningur við Polanski kæmi ekki á óvart. „Ef Hollywood myndi horfast í augu við það hvernig margir úr þeirra röðum eru í raun og veru yrðu mörg auð sæti á Óskarsverðlaununum.“

Fyrr í þessum mánuði steig þýsk leikkona fram og sagði Polanski hafa nauðgað sér þegar hún var 15 ára. Hún er fjórða konan sem sakar leikstjórann um nauðgun. 

epa04104310 Franco-Polish director Roman Polanski poses during a photocall with his trophy after winning Best Director award during the 39th annual Cesar Awards photocall held at the Chatelet Theatre in Paris, France, 28 February 2014.  EPA/IAN LANGSDON
 Mynd: EPA
Fjórar konur hafa sakað Roman Polanski um nauðgun.

Og svo er það Woody Allen. Sonur hans, Ronan Farrow, skrifaði greinina um Harvey Weinstein í New Yorker og það var Farrow sem komst yfir símaupptöku sem varpar skýru ljósi á hegðun Weinsteins.

Farrow hefur barist fyrir því að leikarar í Hollywood sniðgangi hlutverk í kvikmyndum föður síns vegna máls systur sinnar, Dylan Farrow.

Dylan sakaði stjúpföður sinn um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi í opnu bréfi til New York Times. Samtök erlendra blaðamanna í Hollyoowd, sem standa að Golden Globe-verðlaunahátíðinni, höfðu þá ákveðið að heiðra Allen fyrir framlag sitt til kvikmyndagerðar. Allen neitar sök og segir stjúpdóttur sína heilaþvegna af móður sinni, Miu Farrow. 

„Ég trúi vini mínum“ sagði Diane Keaton þegar hún var spurð um málið. „Ég vona að þau finni frið og einhverja lausn,“ svaraði Cate Blanchett þegar hún var að kynna Blue Jasmine.

Mia Farrow skildi við Allen eftir að hún fann nektarmyndir af ættleiddri dóttur sinni, Soon-Yi Previn, á heimili leikstjórans. Soon var þá 21 árs. Allen og Soon gengu í hjónaband fimm árum seinna. Hann er 35 árum eldri en hún.

epa03796311 US director, actor and musician Woody Allen performs with his New Orleans Jazz Band at Anthea in Antibes, southern France, 21 July 2013.  EPA/SEBASTIEN NOGIER
 Mynd: EPA
Stjúpdóttir Allens sakaði hann um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi.

Listinn yfir áhrifamenn í Hollywood sem hafa komist upp með hegðun sína gagnvart konum í skjóli valds er langur og teygir sig aftur til gullaldarára kvikmyndanna.

Árið 1943 var Errol Flynn ákærður fyrir að nauðga tveimur 17 ára stelpum. Réttarhöldin urðu að miklum fjölmiðlasirkus og kviðdómurinn, sem samanstóð af níu konum og þremur körlum, sýknaði Flynn af ákærunni. „Ég vissi að þetta yrði niðurstaðan. Konurnar í kviðdómnum sátu bara og dáðust að honum,“ sagði önnur stúlkan. Flynn átti síðar í ástarsambandi við hina 15 ára gömlu Beverly Aadland. Hann var þá fimmtugur. „Ég vil hafa viskíið mitt gamalt en konurnar mínar ungar,“ á Flynn að hafa sagt.

Brie Larson, sem hlaut Óskarsverðlaun fyrir leik sinn í Room, er í hópi þeirra sem hafa neitað að viðurkenna kynferðisleg áreitni sem nánast „eðlilega hegðun“ karla í Hollywood. 

Þegar hún afhenti Casey Affleck Óskarsverðlaunin vakti athygli að hún var ein fárra sem klöppuðu ekki. „Það sem ég gerði á sviðinu skýrir sig sjálft. Ég hef sagt allt sem ég þarf að segja um þetta mál,“ sagði Larson í viðtali við Vanity Fair. Í aðdraganda Óskarsverðlaunanna hafði komið í ljós að Affleck samdi um greiðslur til tveggja kvenna vegna ásakana um að hann hefði áreitt þær kynferðislega við tökur á kvikmyndinni I'm still Here. Larson hafði þetta að segja um mál Weinsteins:

Rose McGowan, ein þeirra kvenna sem Harvey Weinstein samdi við, sagði í viðtali við Hollwyood Reporter í vikunni að karlarnir í Hollywood yrðu að fara breytast. „Hollywood er að missa vægi sitt af því að samfélagið hefur breyst og þroskast en karlarnir í Hollywood ekki.“ McGowan var fjarlægð af Twitter í dag eftir tíst þar sem hún sagði Ben Affleck að fara til fjandans. Hann væri að ljúga þegar hann segðist ekkert hafa vitað um hegðun Weinsteins.

Jenni Konner, einn af framleiðendum Girls frá HBO, sagði mál Weinsteins vendipunkt. „Þegar við lítum um öxl verður þetta augnablikið þar sem hlutirnir fóru að breytast.“ Handritshöfundurinn og leikstjórinn Lena Dunham sagði í aðsendri grein í New York Times að hægt væri að knýja á um breytingar með því að hafa hátt. „Breytingar eru ástæða þess að við segjum sögur. Við viljum ekki þurfa að segja sögu eins og þess aftur og aftur. Hafið hærra.“