Viðgerð á skólpdælustöðinni væntanlega lokið

18.07.2017 - 21:58
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson  -  RÚV
Viðgerð á neyðarloku í skólpdælustöð við Faxaskjól er að mestu leyti lokið. „Þessi bilun er þá væntanlega úr sögunni," segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna. Skólphreinsistöðin ætti þá að virka eins og hún á að gera.

Neyðarlúga dælistöðvarinnar var opnuð í dag svo hægt væri að gera við hana. Á meðan flæddi óhreinsað skólp í sjóinn og varað var við því að saurgerlamengun gæti orðið yfir viðmiðunarmörkum á meðan á viðgerðinni stæði.

„Þetta er búið að ganga samkvæmt áætlun. Neyðarlúgan var opnuð í morgun, en lokan fór síðan niður seinnipartinn og lúgan hefur verið lokuð síðan. Þetta lítur vel út núna, en við getum ekki sagt á þessari stundu að viðgerð sé lokið, því við eigum eftir að prófa þetta á flóði og fjöru. En við erum bjartsýn," segir Ólöf.

Fjölmiðlar greindu frá því að skólpdælustöðin við Faxaskjól væri biluð þann 5. júlí. Þá flæddu 750 lítrar af óhreinsuðu skólpi út í hafið á hverri sekúndu meðan neyðarlúgan stóð opin. Samtals var hún uppi í 16 til 17 daga með hléum meðan reynt var að gera við hana, frá 13. júní til 5. júlí.