Víða vonskuveður á morgun

13.01.2018 - 17:17
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Ört dýpkandi lægð fer yfir vestanvert landið í nótt. Í vestanáttinni í kjölfar hennar gerir storm með hríðarbyl. Hann verður suðvestanlands í nótt og fyrst í fyrramálið, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.

Víða verður stormur og allt að 23 til 28 metrar á sekúndu norðanlands um klukkan 9 í fyrramálið og hríðarbylur. Stórvarasamar hviður verða á sama tíma í vestanverðum Eyjafirði, allt að 45 til 50 metrar á sekúndu. Ekki er ólíklegt að veðrið verði svipað í Skagafirði á milli Varmahlíðar og Sauðárkróks. Í því vonskuveðri sem spáð er á morgun er ferðalöngum bent á að leggja ekki í hann nema að vel athuguðu máli.   

Veðurstofa Íslands hefur gefið út gula viðvörun fyrir höfuðborgarsvæði, Suðurland, Faxaflóð, Breiðafjörð, Vestfirði og Strandir og norðurland vestra.

Á höfuðborgarsvæðinu gildir viðvörunin frá klukkan 20:00 í kvöld til 23:30 annað kvöld. Líkur eru á talsverðri slyddu eða snjókomu um tíma með takmörkuðu skyggni. Færð gæti spillst, einkum í efri byggðum.

Gul viðvörun á Suðurlandi gildir frá klukkan 17:00 í dag þar til klukkan 23:30 annað kvöld. Spáð er sunnan- og suðvestan 15 til 23 metrum á sekúndu með snjókomu eða éljagangi. Skyggni getur tímabundið orðið mjög lítið og færð getur spillst á vegum, til dæmis á Hellisheiði.

Spáin fyrir Faxaflóa er samhljóða og á Suðurlandi. Þar spáir sunnan- og suðvestan hríðaveðri og færð gæti spillst á Mosfellsheiði.

Á Breiðafirði gildir gul viðvörun frá klukkan 20:00 í kvöld og til 23:30 annað kvöld. Þar getur skyggni orðið mjög lítið og færð spillst á Snæfellsnesi.

Spáð er sunnan og suðvestan 15 til 23 metrum á sekúndu á Vestfjörðum, með snjókomu eða éljagangi. Skyggni getur tímabundið orðið mjög lítið og færð getur spillst á fjallvegum.

Á Ströndum og Norðurlandi vestra er von á suðvestan 15 til 25 metrum á sekúndu með snjókomu eða éljagangi, hvassast á Ströndum. Skyggni gæti orðið lítið og færð spillst á fjallvegum, til dæmis á Holtavörðuheiði. 

Víða hálka á vegum

Él hafa verið á Suður- og Suðvesturlandi og þar er því víða nokkur hálka eða hálkublettir. Snjóþekja og krapi er á Hellisheiði, Mosfellsheiði og í uppsveitum Suðurlands. 

Á Vesturlandi og á Vestfjörðum er víða nokkur hálka, krapi eða snjóþekja og sums staðar skafrenningur. Éljagangur er á Snæfellsnesi og á Vestfjörðum. 

Á Norður- og Austurlandi er hins vegar mikið autt eða aðeins hálkublettir. Hálka er þó á Öxnadalsheiði, Möðrudalsöræfum og á fáeinum útvegum. 

Hálka eða hálkublettir eru á köflum á Suðausturlandi. Öxi var opnuð í dag og þar eru hálkublettir.

Nánar má lesa um færð á vef Vegagerðarinnar

Dagný Hulda Erlendsdóttir