„Við verðum klárlega á útivelli“

13.01.2018 - 14:51
„Við erum að vinna í því að leggja upp leikskipulagið okkar fyrir leikinn við Króata á morgun. Við erum ekki alveg komnir með endanlega niðurstöðu í því. Það er heldur ekki mikill tími milli leikja. Í morgun skoðuðum við okkur aðallega. Hvað við getum gert betur og hvað við gerðum vel. Svo reynum við að heimfæra eitthvað af því yfir í leikinn á morgun. En það eru auðvitað einhverjir nýir hlutir sem þurfa að koma inn, og það erum við að skoða,“ sagði Geir Sveinsson við RÚV í Króatíu í dag.

Ísland mætir Króatíu í öðrum leik sínum á Evrópumótinu í handbolta í Króatíu annað kvöld, en Ísland vann Svíþjóð í fyrsta leik sínum, 26-24. „Króatarnir eru auðvitað á heimavelli. Þeim líður vel hérna og þeir vildu spila í Split enda hafa þeir frábæra áhorfendur hérna. Lino Cervar þjálfari þeirra leggur mikið upp úr því að leikmenn spili með hjartanu á þessu móti. Þess bar merki í leik þeirra við Serba í gær. Þannig við þurfum auðvitað að búa okkur undir það. Út frá því verður þetta allt öðru vísi leikur annað kvöld en var í gær. Við verðum klárlega á útivelli,“ sagði Geir um leikinn fram undan við Króata.

„Þeir refsa auðvitað gríðarlega. Þeir eru með mjög öfluga einstaklinga í hverri einustu stöðu. Þeir eru mjög ákafir í því sem þeir gera og klippa mikið. Við þurfum að vera mjög agaðir í því sem við gerum á móti þeim. Um leið og við réttum þeim boltann eða gerum eitthvað óagað þá verður okkur refsað eins og skot. Einbeitingin þarf að vera í lagi hjá okkur. Svo þurfum við líka að leysa ákveðna þætti, eins og til dæmis þegar þeir spila sína hefðbundnu 5-1 vörn. Það kom svolítið í bakið á okkur á móti þeim á EM 2016. Þannig þetta eru svona þættirnir sem við þurfum að vinna í,“ sagði Geir.

Leikur Íslands og Króatíu hefst kl. 19:30 annað kvöld og verður leikurinn sýndur beint á RÚV. Þá verður honum einnig lýst sérstaklega í útvarpinu á Rás 2.

Mynd með færslu
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
íþróttafréttamaður