Vesturverk gagnrýnir skýrslu um raforkuöryggi

11.01.2018 - 17:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV Grafík  -  GoogleMaps
Forsvarsmenn Vesturverks, sem undirbýr Hvalárvirkjun, segja Hvalárvirkjun bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum og gagnrýna framsetningu á niðurstöðum skýrslu um afhendingaröryggi á Vestfjörðum, sem að Landvernd kynnti í gær.

 

Í skýrslunni, sem er unnin af METSCO, kanadísks ráðgjafafyrirtæki á sviði raforkuflutnings segir um Hvalárvirkjun að virkjunin sem slík bæti ekki raforkuöryggi á Vestfjörðum að ráði þar sem bágt afhendingaröryggi ráðist helst af ótryggum loftlínum. Megin umfjöllunarefni skýrslunar er möguleikinn á því að skipta út loftlínum fyrir jarðstrengi.

Vesturverk segir að aukið raforkuöryggi Hvalárvirkjunar felist í aukinni orkuframleiðslu á svæðinu og að aukið afhendingaröryggi með tilkomu virkjunarinnar felist í í því að stytta flutningsleið raforku til notandans en gert er ráð fyrir því að Hvalárvirkjun tengist inn á Vesturlínu í Kollafirði og því þarf raforkan ekki að koma inn á Vestfirði úr Hrútafirði eins og hún gerir nú.

Vesturverk bendir á að í skýrslu METSCO sé einvörðungu lagt mat á raforkuöryggi út frá ólíkum flutningsleiðum, með loftlínum eða jarðstrengjum, en ekki skoðaðir virkjunarkostir á Vestfjörðum. Þá séu ekki til skoðunar flutningsleiðir raforku Hvalárvirkjunar en fyrirhugað sé að leggja jarðstrengi.