Verðhækkunum mótmælt í Túnis

10.01.2018 - 10:09
Yfir tvö hundruð mótmælendur hafa verið handteknir í Túnis eftir andófsaðgerðir víðsvegar um landið í gærkvöld og fyrrakvöld vegna óvinsælla efnahagsráðstafana sem leitt hafa til mikilla verðhækkana. Að sögn talsmanns innanríkisráðuneytis landsins hafa tugir særst, þar á meðal 49 lögreglumenn. Hann segir mótmælendur hafa valdið skemmdum og einnig rænt matvöruverslun í Túnisborg.

Liðsauki lögreglumanna og hermanna var sendur til nokkurra borga í gær til að halda aftur af mótmælendum. Í borginni Tebourba, um 30 kílómetrum vestan við höfuðborgina, mótmæltu ungir menn á götum úti eftir að maður á fimmtugsaldri sem lést í uppþoti á mánudagskvöld var borinn til grafar. Þeir saka lögregluna um að hafa orðið honum að bana. Því neita forsvarsmenn lögreglunnar.  

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV