Veltan jókst um 20 prósent á landsbyggðinni

02.01.2018 - 15:34
Mynd með færslu
 Mynd: Reykjanesbær
Hlutfallsleg aukning veltu fasteignaviðskipta var þrefalt meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu árið 2017. Hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði segir að framboðsskortur á höfuðborgarsvæðinu hafi ýtt upp verðinu í nágrannasveitarfélögum. 

Þjóðskrá hefur gefið út yfirlit yfir fasteignamarkaðinn árið 2017. Þar kemur fram að heildarviðskipti með fasteignir á landinu hafi numið tæplega 504 milljörðum króna árið 2017. Árið 2016 nam veltan 462 milljörðum og jókst um rúmlega níu prósent. Þetta er talsvert minni hækkun en milli áranna 2015 og 2016 þegar veltan jókst um tæp 25 prósent. 

Hefur hægt á verðhækkunum á höfuðborgarsvæðinu

Á höfuðborgarsvæðinu var veltan 370 milljarðar króna í fyrra, samanborið við 350 milljarða árið 2016 og jókst um sex prósent. Árið 2016 jókst veltan um rúmlega 23 prósent frá árinu á undan. Það styður fullyrðingar hagfræðinga og fasteignasala, um að hægst hefði nokkuð á fasteignamarkaði í fyrra.

Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði, segir að árið hafi verið tvískipt. „Á fyrri hluta árs þá hækkaði verð mjög hratt, bæði á höfuðborgarsvæðinu og víða á landsbyggðinni en á seinni helmingi ársins hægði verulega á þessum verðhækkunum,“ segir Ólafur. 

Veltan jókst um fimmtung á landsbyggðinni

Því hafi markaðurinn náð ákveðnu jafnvægi. Þetta gildir þó ekki eins um fasteignamarkaðinn á landsbyggðinni sem var á mikilli siglingu. Utan höfuðborgarsvæðisins námu viðskipti með fasteignir 134 milljörðum króna, samkvæmt tölum Þjóðskrár, samanborið við 112 milljarða árið 2016. Aukningin nam því tæplega 20 prósentum milli ára. Þá fjölgaði þinglýstum kaupsamningum á landsbyggðinni árið 2017 á meðan þeim fækkaði á höfuðborgarsvæðinu.

Ólafur segir benda til þess að markaðurinn hafi tekið seinna við sér á landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu, en þó sé talsverður munur milli svæða og var hækkunin mest í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. „Í Reykjanesbæ og Árborg hækkaði fasteignaverð mjög hratt, á sama tíma og það voru aðeins minni verðhækkanir annars staðar á landsbyggðinni. En það náttúrulega endurspeglar þann mikla framboðsskort sem verið hefur sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Fólk hefur því kannski í auknum mæli leitað út fyrir höfuðborgarsvæðið í nágrannasveitarfélögin,“ segir Ólafur. 

Mynd með færslu
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV