Varasamar hviður á Reykjanesbrautinni

11.01.2018 - 16:46
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson  -  RÚV
„Við sjáum það í þessum töluðu orðum að vindur er búinn að ná stormstyrk, til dæmis á Reykjanesbraut og þar eru varasamar hviður þvert á veginn í þessari slagveðursrigningu. Það er líka kominn stormur á Kjalarnesi. Við göngin eru hviður upp á 38 metra á sekúndu og þetta er allt að potast upp,“ segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Vegagerðinni. Hann segir að hvassviðrið nái hámarki milli klukkan 17 og 18 á suðvesturhorninu.

„Þó það sé rigning uppi í bænum þá er bleytuhríð uppi á Hellisheiði og maður sér það á vefmyndavélunum að þar er lítið skyggni og ábyggilega erfitt að fara um.“

Einar segir að veðrið gangi hratt yfir suðvestanlands. Varað hafi verið ágætlega við veðrinu og óþarfi að vera á ferli á meðan það gengur yfir. 

Veðrið versni seinna í kvöld í öðrum landshlutum. „Um kvöldmatarleyti verða hviður hvað verstar undir Hafnarfjalli, ég sé að hann er að slá upp í 47 metra á sekúndu akkúrat núna. Snjóar dálítið á Vestfjörðum í kvöld og svo hvessir norður í Húnaþingi, kringum Blönduós og eins í Skagafirði og síðan er þessi suðaustanátt leiðinleg í kringum Húsavík. Það er seinna í kvöld og á norðausturlandi ekki fyrr en undir miðnætti.“

Varað er við mikilli úrkomu og vatnavöxtum. „Það rignir með þessu á Suðaustur- og Austurlandi en það heldur áfram að rigna þar á morgun og það er kannski ekki síður þá sem eru vatnavextir. Það munar svo miklu núna að þessi skil sem óveðrinu valda að þau fara hratt yfir. Rjúka hérna yfir landið og þetta er ekta vetrarlægð sem er hér suðaustur af landinu.“

Einar segir að tímasetning óveðursins komi sér illa fyrir þá sem fari heim úr vinnu á milli 17 og 18, þegar hvassviðrið nær hámarki suðvestanlands. Aldrei áður sæki jafn margir vinnu á höfuðborgarsvæðisins sem búa utan þess, til dæmis fyrir austan fjall, á Akranesi eða Reykjanesbæ. „Það gildir að fara varlega. Það er ein góð regla þegar ekið er í hliðarvindi og það er að slá verulega af hraðanum eða bíða þetta af sér því þetta gengur svo hratt yfir.“

Tveggja daga hlé er á hvassviðrinu vestanlands, miðað við spána. „Það kemur önnur lægð úr suðri og veldur aftur stormi og rigningu austan- og suðaustanlands á morgun en skaplegra veður verður hér. Svo verðum við að sjá hvað gerist á laugardag. Það er spenna í loftinu með það. Ef allt slær til þá verður að öllum líkindum seinni partinn á laugardag versta veður hérna vestanlands. En það gæti líka sloppið skár en eitthvað fáum við af þessu en við verðum bara að bíða og sjá hvernig þetta þróast.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðdegisútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi