Varað við stormi á morgun

06.01.2018 - 16:07
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson  -  RUV
Veðurstofan hefur gefið út gula stormviðvörun sem gildir við Breiðafjörð og á Vestfjörðum á morgun. Búist er við suðaustan og austan hvassviðri eða stormi auk þess sem vindhviður geta orðið mjög hvassar við fjöll, einkum á norðanverðu Snæfellsnesi. Þá hefur Vegagerðin gefið út gula viðvörun vegna færðar á suðvestanverðu landinu í nótt og fram á morgun.

Útlit er fyrir slyddu og síðar rigningu við Breiðafjörð meðan veðrið gengur yfir. Samkvæmt viðvöruninni er það milli klukkan tíu í fyrramálið og níu annað kvöld. 

Á Vestfjörðum er gert ráð fyrir snjókomu og skafrenningi, víða verður blint meðan veðrið gengur yfir. Viðvörunin á Vestfjörðum er í gildi frá klukkan sjö í fyrramálið til klukkan tvö síðdegis.

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar hefur gefið út gula ábendingu vegna lægðaskila. Hann varar við hríðarveðri á Hellisheiði og Mosfellsheiði frá því í nótt og fram undir klukkan ellefu í fyrramálið. Í fyrramálið snjóar, einkum sunnan- og vestanlands. Þá tekur veðurfræðingurinn fram að hiti sé nú þegar í kringum frostmarkið, þegar við bætist bleyta á vegum aukast líkurnar á hálku verulega. Það á við á flestum vegum landsins.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV