Vantar félagslegan stöðugleika

11.10.2017 - 10:20
BSRB hefur skorað á stjórnmálaflokkana að gera skýra grein fyrir afstöðu sinni til mikilvægra málaflokka. Sérstök áhersla er lögð á mikilvægi félagslegs stöðuleika: Efnahagslegur stöðugleiki verði ekki til án félagslegs stöðugleika. Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, ræddi þessi mál á Morgunvaktinni á Rás 1. Hún segir að töluvert vanti upp á að hér ríki félagslegur stöðugleiki, ekki síst eigi það við um ungt fólk og eldri borgara.

En hvað er átt við með félagslegum stöðugleika? Jú, það er að fólk geti gengið að réttindum vísum þegar það verður fyrir slysum, veikist eða missir atvinnu, öldruðum séu tryggð skilyrði til að lifa mannsæmandi lífi. Elín Björg Jónsdóttir segir að allir stjórnmálamenn skilji hvað átt sé við með efnahagslegum stöðugleika en öðru máli gegni um félagslegan stöðugleika. „Fyrir mér er félagslegur stöðugleiki er jafn skýr og landakort af Íslandi. Ég á erfitt með að skilja af hverju það er ekki auðskiljanlegt. - Félagslegur stöðugleiki er sú afstaða að fólk geti gengið að og viti hvaða réttindi það hefur.“ Hún tekur dæmi af manneskju sem veikist. Hún á þá að vita í hvaða stöðu hún er, hver réttindin eru og hvaða þjónustu hún fær. Sama gildi um það þegar barn fæðist. Hvert er fæðingarorlofið og hvernig er dagvistun háttað að því loknu. „Við erum að tala um mikilvægi þess að einstaklingar og fjölskyldur viti hvar þau eru stödd.“ En búum við ekki við félagslegan stöðugleika? „Nei, við gerum það ekki. Það er verið að rýra á fjárlögum hvers árs t.d. bæði barnabætur og vaxtabætur.“ Það er ekki félagslegur stöðugleiki ef einstaklingur eða fjölskyldur geta ekki séð fyrir sér að afkoma sé tryggð næstu fimm árin miðað við áætlaðar tekjur eða að öruggt sé að barnið þitt fái nauðsynlega dagsvistun að loknu fæðingarorlofi. Þarna vantar mikið upp á hjá mörgum sveitarfélögum. Erum við að fjarlægjast aðrar Norðurlandaþjóðir í þessum efnum? „Ég er voðalega hrædd um að við séum að gera það, ekki síst varðandi unga fólkið og barnafjölskyldur. Og líka varðandi þá sem eru eldri og þurfa á þjónustu að halda.“

„Það þarf að láta verkin tala og koma þessum hlutum á hreint.“

Áfram er baráttan fyrir hækkun launa auðvitað ein brýnasta krafa aðildarfélaga BSRB – en líka að leitað sé leiða til að stytta vinnutíma fólks án kjaraskerðingar. Það er nefnilega mikilvægt að eiga líf utan vinnutímans.

 

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi