Undirbúa móttöku yfir 20 flóttamanna við Djúp

07.01.2018 - 16:00
Áætlað er að um 60 flóttamenn frá Írak, Sýrlandi og Úganda komi til landsins um miðjan febrúar. Verkefnastjóri hjá Rauða krossinum, á Ísafirði, segir nóg pláss fyrir fleiri og vill að Íslendingar taki við fleirum sem eru á flótta.

Unnið að samningum við nokkur sveitarfélög

Velferðarráðuneytið hefur átt í viðræðum við sveitarfélög á þremur stöðum á landinu um móttöku flóttamannana. Áætlað er að yfir 20 flóttamenn frá Sýrlandi og Írak fari vestur í Ísafjarðardjúp, til Ísafjarðarbæjar, Súðavíkur og Bolungarvíkur og yfir 20 manns austur í Fjarðabyggð. Alls 10 fjölskyldur. Þá eru 10 manns frá Úganda sem áætlað er að setjist að í Mosfellsbæ. Unnið er að samningum við ráðuneytið en sveitarfélögin hafa nú þegar hafið undirbúning. „Sveitarfélagið heldur utan um verkefnið og kemur til með að ráða verkefnastjóra á síðari stigum málsins og tryggir fólkina alla þjónustu sem það þarf,“ segir Sædís María Jónatansdóttir, sem starfar á velferðarsviði Ísafjarðarbæjar.

Sækja námskeið fyrir flutninga

Fjölskyldurnar hafa undanfarið dvalið í Jórdaníu þar sem þau hafa sótt undirbúningsnámskeið, til dæmis í væntingastjórnun, og fengið kynningu á landi og þjóð. Þrátt fyrir undirbúning er ljóst að veðráttan, tungumálið, fámennið og skammdegið verða viðbrigði. „Okkar tilfinning er að sólin komi líka úr samfélaginu og við reynum bara að halda vel utan um þau. - Við finnum að það er samhugur. Fólk vill leggja sitt að mörkum. Það eru frekar fleiri en færri sem vilja hjálpa,“ segir Sædís. Hún telur mestu áskorunina felast í að læra tungumálið.

Móttakan eins og hreiður fyrir fólk

Rúmlega tuttugu ár eru síðan jafnstór hópur flóttafólks kom síðast vestur, þau voru frá fyrrverandi Júgóslavíu. Verkefnastjóri hjá Rauða krossinum segir að móttaka þeirra hafa gengið vel þótt ekkert þeirra búi lengur fyrir vestan. Fólk er ekki skikkað til þess að dvelja áfram. „Við lítum á þetta sem hreiður, við erum að bjóða þeim að vera í þessu hreiðri og svo geta þau bara flogið úr hreiðrinu, annað hvort með hjálp okkar eða bara sjálf,“ segir Bryndís Friðgeirsdóttir, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum. Rauði krossinn er meðal þeirra sem koma að móttöku flóttamannanna nú, eins og áður, og undirbýr húsnæði og stuðningsfjölskyldur. „Það er nóg pláss hjá okkur og við vitum af vandanum. Og Ísland getur tekið á móti fleiri flóttamönnum.“