Umhverfisráðherra sækir Vestfirði heim

10.01.2018 - 14:42
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson  -  RÚV
Umhverfisráðherra hélt í dag til Vestfjarða til fundar við sveitarstjórnarfólk, forsvarsmenn samtaka, fyrirtækja og stofnana. Ráðherra segir að aldrei sé of oft rætt við heimamenn og bindur vonir við að geta sjálfur dregið lærdóm af ferðinni.

Fyrsta ferð umhverfisráðherrans út á land

Þetta er fyrsta ferð Guðmundar Inga Guðbrandssonar, í starfi nýs umhverfisráðherra, út á land. Hann segir að Vestfirðir hafi orðið fyrir valinu vegna margra málefna sem heyra undir ráðuneytið og nefnir til dæmis skipulagsmál, eins og skipulag haf- og strandsvæða, og náttúruverndarsvæði. Fiskeldismál og raforkuöryggismál eru jafnframt meðal málefna sem Guðmundur Ingi vill kynna sér betur, þótt þau heyri ekki beint undir umhverfisráðuneytið. „Að maður kynnist betur sjónarmiðum heimamanna, þeirra sem eru kannski nær til dæmis náttúruverndinni, skipulagsmálunum, fiskeldinu og svo framvegis. Og það eru þær vonir sem ég bind við þetta að ég geti lært af þessu og aukið samtalið sem getur aldrei orðið of mikið.“

Samtal við heimafólk

Ferðin hefst á Bíldudal og þaðan verður haldið austurfyrir, í Reykhólahrepp, á Strandir og endað á norðanverðum Vestfjörðum. Á dagskránni eru meðal annars fundir við sveitarstjórnarfólk, forsvarsmenn fiskeldisfyrirtækja, náttúruverndarsamtök og stofnanir. „Það er yfirleitt það fyrsta sem að maður gerir að byrja að tala saman til þess að bæði auka skilning og árangur af þeim verkefninum sem við erum að fást við á landsvísu.“
 

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV