Um 100 á bráðamóttöku vegna hálkuslysa í gær

12.01.2018 - 20:35
Mynd með færslu
 Mynd: Rennigljá á Egilsstöðum  -  RÚV - Rúnar Snær Reynisson
Tæplega 220 leituðu á bráðamóttöku Landspítala í gær og lætur nærri að um helmingur hafi þurft aðstoð vegna hálkuslysa. Þetta kemur fram í pistli forstjóra á vef spítalans.

„Þetta er gríðarlegur fjöldi og að líkindum eitt það mesta sem við höfum séð í langan tíma. Meiðslin eru mis alvarleg en mikill fjöldi hefur þó þurft skurðaðgerð og legu hjá okkur í framhaldinu,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala í pistlinum. Inflúensan hafi samhliða færst í aukana svo að álag á spítalanum er með mesta móti. Páll segir að þessi árstíðabundna aukning komi ekki á óvart, þó að hún sé vissulega nokkur viðbót var það sem vant er.

Páll segir í pistlinum að það væri æskilegt að geta fjölgað starfsfólki spítalans og aukið framboð legurýma við þessar aðstæður en því miður sé staðan sú að vegna skorts á starfsfólki, sérstaklega hjúkrunarfræðingum, hafi þurft að fækka legurýmum fremur en hitt. Þetta sé „risastórt úrlausnarefni“ sem horfa verði út fyrir Landspítala til að leysa. 

Mynd með færslu
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.  Mynd: RÚV
Dagný Hulda Erlendsdóttir