Tyrkir vilja bætta sambúð við Evrópu

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, fór fyrir helgi til Frakklands til viðræðna við Emmanuel Macron Frakklandsforseta. Heimsóknin er liður í tilraunum Tyrkja til að bæta sambúðina við ríki Evrópusambandsins, sem hefur verið mjög stirð undanfarin misseri.

Blikur á lofti í efnahagsmálum eftir gott gengi

Fréttaskýrendur telja að ástæðan fyrir því að Tyrklandsforseti vill nú friðmælast við ríki Evrópu sé að horfur í efnahagslífinu hafa versnað. Síðasta ár var mikill uppgangur, á þriðja ársfjórðungi var hagvöxtur rúmlega 11 prósent, meiri en í nokkru öðru stóru ríki. Breska tímaritið The Economist segir að ástæðan sé að hluta til auðvelt aðgengi að ódýru lánsfé sem stjórnvöld hafi beitt sér fyrir til að vinna gegn áhrifum mikils samdráttar í ferðaþjónustu. Ódýr lán og skattalækkanir hafi leitt til nærri 12 prósenta aukningar einkaneyslu. En blikur eru á lofti, segir Economist, gríðarlegur halli er á utanríkisviðskiptum, verðbólga komin í 13 af hundraði og tyrkneska líran hefur fallið um nærri 40 prósent frá ársbyrjun 2015.

Vilja betri kjör í viðskiptum við Evrópu

Tyrkir vilja bætt kjör í viðskiptum við Evrópusambandsríki með endurbættu tollabandalagi til að tryggja áframhaldandi vöxt. Rætt var við Denis Cerinci, blaðamann af tyrkneskum uppruna sem býr í Danmörku, í fréttaskýringaþætti danska ríkisútvarpsins. Cerinci segir að Erdogan þurfi á efnahagsbata að halda. Hljóðið í tyrkneskum ráðamönnum hefur því breyst frá því að Erdogan sagði Angelu Merkel Þýskalandskanslara beita aðferðum nasista fyrir ári. Erdogan sagði þetta þegar Þjóðverjar meinuðu tyrkneskum ráðherrum að halda fundi með Tyrkjum í Þýskalandi. Þá stóð fyrir dyrum þjóðaratkvæðagreiðsla um aukin völd Tyrklandsforseta. Tillagan var samþykkt.

Annað hljóð komið í strokkinn

Nú lýsir Erdogan hins vegar leiðtogum í Þýskalandi og Hollandi sem vinum sínum. Fyrir ári voru Tyrkir í sterkri samningsstöðu, Vesturlönd þurftu á herflugvöllum í Tyrklandi að halda í baráttunni gegn hinu svokallaða Íslamska ríki og gátu hótað að hleypa sýrlenskum flóttamönnum óhindrað til Evrópu. Nú hefur Íslamska ríkið beðið lægri hlut á vígvellinum og flóttamannastraumurinn hefur minnkað. Erdogan hefur því látið af margítrekuðum hótunum um að leyfa flóttamönnum frjálsa för til Evrópu. Denis Cerinci segir að Erdogan telji því að nú sé kominn tími bæta sambúðina við ESB ríkin.    

 

 

Mynd með færslu
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV