Tveir særðir í skotárás á Norðurbrú

13.08.2017 - 00:34
Mynd með færslu
 Mynd: politiet.dk
Tveir særðust þegar skothríð reið yfir Rauða torgið á Norðurbrú í Kaupmannahöfn á tólfta tímanum í kvöld, að staðartíma. Hinir særðu voru fluttir á sjúkrahús en eru ekki í lífshættu, að sögn Jespers Beuschel hjá Kaupmannahafnarlögreglunni, sem stýrir rannsókn málsins. Þetta kemur fram á vef Danska ríkisútvarpsins, DR. Þar segir ennfremur að lögregla viti lítið sem ekkert um tildrög árásarinnar, enn sem komið er.

Samkvæmt frétt DR hefur Nørrebrogade verið lokað á meðan vettvangsrannsókn fer fram. Beuschel segir ekkert vitað um byssumennina en rannsókn sé í fullum gangi. Á Twittersíðu Kaupmannahafnarlögreglunnar er greint frá því að mörg skothylki hafi fundist á vettvangi og að tveir menn hafi sést hraða sér þaðan á skellinöðru.

Nokkuð hefur verið um skotárásir í Kaupmannahöfn í sumar og hefur verið tilkynnt um 24 slikar á síðustu tveimur mánuðum. Ein þeirra var einmitt framin í næsta nágrenni Rauða torgsins 1. ágúst. Þá var mörgum skotum skotið að ungum manni, og eitt þeirra lenti í sitjanda hans. Byssumennirnir flýðu á skellinöðru, sem fannst nokkru síðar. Enginn hefur verið handtekinn vegna þeirrar árásar, en fórnarlambið var „góðkunningi lögreglunnar,“ að því er segir í frétt BT

Talið er að flestar skotárásir sumarsins tengist átökum glæpagengja.