Tveir í haldi vegna sendingar til Skáksambands

13.01.2018 - 14:55
Mynd með færslu
Ofbeldismennirnir þrír sem handteknir voru í nótt gista allir fangageymslur  Mynd: rúv
Tveir eru í gæsluvarðhaldi vegna umfangsmikillar rannsóknar lögreglu og tollayfirvalda á fíkniefnasendingu til Skáksambands Íslands í vikunni. Í tilkynningu frá lögreglu er áréttað að hvorki Skáksambandið né Taflfélag Reykjavíkur tengist málinu.

Fyrst var greint frá sendingunni til Skáksambandsins í DV. Rætt var við Gunnar Björnsson, forseta Skáksambands Íslands í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í gær. Þar sagði hann frá þegar sendill frá DHL kom með sendingu á skrifstofu sambandsins í Faxafeni í vikunni. Enginn þar hafi átt von á sendingu en hann hafi tekið við henni þar sem búið var að greiða sendingarkostnaðinn. „Ég byrja að skoða þessa skrítnu sendingu sem við vorum að fá en var varla byrjaður á því þegar hurðin var opnuð með látum. Inn kemur sérsveitarmaður með lambhúshettu og allan pakkann. Svo kemur stóð hingað inn. Mér skilst að þetta hafi verið allt í allt 14 sérsveitarmenn sem komu hingað,“ sagði Gunnar í viðtalinu í gær.

Fíkniefni voru í pakkanum við komuna til landsins en búið var að fjarlægja þau þegar afhenda átti pakkann á skrifstofu Skáksambandsins. Gunnar var færður til yfirheyrslu en sleppt að henni lokinni, enda á hann enga aðild að málinu. Í Síðdegisútvarpinu í gær sagði hann ljóst að hann myndi hugsa sig tvisvar um áður en hann tekur næst á móti sendingu til Skáksambandsins. 

Dagný Hulda Erlendsdóttir