Tveggja manna kosningaeftirlit

13.10.2017 - 11:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu ætlar að senda tveggja manna sendinefnd til að fylgjast með þingkosningunum undir lok mánaðarins. Þetta er niðurstaðan af fundum fulltrúa ÖSE með íslenskum embættismönnum, stjórnmálamönnum og fleirum fyrr í mánuðinum.

Í skýrslu um fundina segir að fulltrúar ÖSE hafi fulla trú á því að kosningaferlið á Íslandi sé áreiðanlegt og gagnsætt. Viðmælendur á Íslandi hafi hins vegar tekið vel í að ÖSE sendi fólk til eftirlits. Að auki hafi menn talið það kost að fá ábendingar frá ÖSE vegna endurskoðunar kosningalöggjafarinnar. Sendinefndin á sérstaklega að fylgjast með samskiptum þeirra stjórna og stofnana sem koma að framkvæmd kosninganna og skoða samræmi í kosningaframkvæmd milli kjördæma. Hún á líka að skoða eftirlit með fjármögnun og fjárútlátum í kosningabaráttunni.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ÖSE stendur fyrir kosningaeftirliti á Íslandi. Það var gert við fyrstu þingkosningarnar eftir hrun, árið 2009, og aftur fjórum árum síðar. Eftir þingkosningarnar 2013 komust eftirlitsmenn að þeirri niðurstöðu að kosningarnar væru gagnsæjar og valkostir kjósenda fjölbreyttir. Þá hefði kosningaferlið notið góðs af því að mikil virðing væri borin fyrir grundvallarréttindum og frelsi auks trausts á hlutleysi kjörstjórna.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV