Tugir vændiskaupenda í yfirheyrslum

06.02.2018 - 14:16
Lögreglustöðin við Hverfisgötu hefur verið lagfærð að utan.
 Mynd: RÚV  -  Þ
Rannsókn lögreglunnar á sambýlisfólki á fertugsaldri, sem er grunað um umfangsmikla vændisstarfsemi, er á lokametrunum. Þetta segir Snorri Birgisson hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Sambýlisfólkið sat um skeið í gæsluvarðhaldi vegna málsins í lok nóvember. 

„Við erum að byrja að yfirheyra einstaklinga sem eru grunaðir um kaup á vændi í tengslum við þetta mál. Fjöldi þeirra hleypur á einhverjum tugum einstaklinga. Þeir verða kallaðir til skýrslutöku og í framhaldi verður tekin ákvörðun í ákærusviði hvort þeir verða ákærðir eða sektaðir í þessu máli,“ segir Snorri í samtali við fréttastofu.

Þrjár erlendar konur sem lögregla telur að hafi verið gerðar út í vændi fóru af landi brott skömmu eftir að sambýlisfólkið var handtekið. Vitnaskýrslur fyrir dómi voru teknar af konunum þremur, sem má nota þegar og ef réttað verður í málinu. Maðurinn sem sat í gæsluvarðhaldi er íslenskur en konan erlend, en hún hefur verið búsett hér í þó nokkurn tíma.