Tugir þúsunda krefjast afsagnar Tógó-forseta

31.12.2017 - 04:28
Erlent · Afríka · Tógó · Stjórnmál
Mynd með færslu
 Mynd: SVT
Mynd með færslu
 Mynd: SVT
Tugir þúsunda Tógó-búa hafa safnast saman á götum og torgum Lomé, höfuðborgar Tógó, um helgina og mótmælt stjórn og stjórnarháttum forsetans, Faure Gnassingbé. Skipulögð og fjölmenn mótmæli gegn forsetanum og stjórn hans hafa farið fram með reglulegu millibili frá því í ágúst síðastliðnum. Stöðugt fjölgar í hópi mótmælenda, sem krefjast afsagnar forsetans og breytinga á stjórnarskrá landsins, sem miða að því að takmarka hámarks valdatíð forseta.

„Við vorum hrædd við herinn, en við erum það ekki lengur!“ hefur tíðindamaður AFP eftir Ibrahim nokkrum, sem tók þátt í mótmælum helgarinnar. „Við erum þreytt! Þeir geta otað að okkur vopnum sínum, en við erum reiðubúin að fórna lífi okkar.“ Faure Gnassingbé hefur verið forseti Tógó síðan 2005, en það ár tók hann við embætti af föður sínum, sem stjórnaði Tógó í 38 ár. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV