Trump fordæmir hatur og ofbeldi

12.08.2017 - 21:38
epa06141191 A handout photo made available by the Virginia State Police shows emergency personnel treating victims at the site where a car hit pedestrians in Charlottesville, Virginia, USA, 12 August 2017. According to media reports at least one person
 Mynd: EPA  -  Virginia State Police
Donald Trump Bandaríkjaforseti fordæmdi í kvöld hatur og ofbeldi í átökum hvítra þjóðernissinna og andstæðinga þeirra í borginni Charlottesville. Trump sagðist fordæma hatur, fordóma og ofbeldi af margra hálfu. Hann sagði Bandaríkjamenn verða að sameinast í föðurlandsást sinni.

Terry McAuliffe, ríkisstjóri í Virginíu, lýsti fyrr í dag yfir neyðarástandi í Charlottesville vegna átakanna sem þar áttu sér stað. Þau voru milli öfgaþjóðernissinna, þar á meðal nýnasista og meðlima í Ku Klux Klan, annars vegar og andstæðinga þeirra hins vegar sem fordæmdu kynþáttahatur. Einn lést í dag þegar bíl var ekið inn í hóp fólks sem mótmælti þjóðernissinnunum. Nítján til viðbótar slösuðust.

Komið hefur til átaka í tvo daga í röð vegna samkomu öfgaþjóðernissinnanna. Þeir komu saman í Charlottesville um helgina til að mótmæla því að fjarlægja á styttu af herforingjanum Robert Lee á torgi  í bænum. Robert Lee er einn sögufrægasti herforingi Suðurríkjanna í bandaríska borgarastríðinu sem stóð frá 1861 til 1865. Þá var meðal annars barist um rétt ríkja til að ráða sér sjálfum og framtíð þrælahalds.