Toyota og Mazda framleiða bíla í Alabama

10.01.2018 - 22:22
Akio Toyoda, right, Toyota Motor Corp., speaks as Alabama Gov. Kay Ivey, center, Masamichi Kogai, Mazda Motor Corp. president and CEO,  listen during a press conference, Wednesday, Jan. 10, 2018, in Montgomery, Ala., where the Japanese automakers
 Mynd: AP
Japönsku bílaframleiðendurnir Toyota og Mazda tilkynntu í dag um byggingu sameiginlegara bílaverksmiðju í Huntsville, Alabama í Bandaríkjunum. AFP segir að gert sé ráð fyrir að fjögur þúsund manns komi til með að starfa í verksmiðjunni. Þar verða framleiddir bílar fyrir Bandaríkjamarkað frá og með árinu 2021.

Þar er einnig gert ráð fyrir að unnið verði að tækniþróun fyrir rafmagnsbíla.

Kay Ivey, ríkisstjóri í Alabama, segir að verksmiðjan eigi eftir að styrkja hagvöxt í ríkinu. Verksmiðjan á fullbúin að geta framleitt 300 þúsund bíla á ári og verður jafn mikið framleitt af Toyota Corolla og Mazda sem sérstaklega verða framleiddir fyrir markað í Norður-Ameríku.  

Þetta verður fyrsta verksmiðja Mazda í Norður Ameríku en Toyota er með aðra verksmiðju í Huntsville, þar sem smíðaðar eru vélar fyrir fólksbíla og létta flutningabíla. Nýja verksmiðjan verður sú ellefta sem Toyota opnar í Bandaríkjunum og er til viðbótar við tíu milljarða dollara fjárfestingu sem fyrirtækið skuldbatt sig til í fyrra til fimm ára. 

Huntsville er í norðurhluta Alabama, sem er eitt fátækasta ríki Bandaríkjanna. Alabama ríki er í fimmta sæti yfir bílaframleiðsluríki Bandaríkjanna og þar starfa nærri 57 þúsund störf í bílaiðnaðinum, hefur AFP eftir upplýsingum frá skrifstofu ríkisstjóra Alabama. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV