Tindastóll er bikarmeistari 2018

13.01.2018 - 15:21
Tindastóll varð í dag bikarmeistari karla í körfubolta en liðið hreinlega valtaði yfir KR sem hafa unnið bikarinn síðustu tvö ár. Tindastóll byrjaði leikinn frábærlega og vann á leikinn á endanum með 27 stiga mun, lokatölur 96-69 Tindastól í vil og ljóst að Maltbikarinn er á leiðinni á Sauðárkrók.

KR byrjaði án Bandaríkjamanns en byrjunarlið þeirra var Brynjar Þór Björnsson, Björn Kristjánsson, Darri Hilmarsson, Pavel Ermolinskij og Kristófer Acox. 

Tindastóll byrjaði með Axel Kárason, Sigtrygg Arnar Björnsson, Pétur Rúnar Bjarnason, Viðar Ágústsson og Antonio Hester.

Ótrúleg byrjun Tindastóls í Höllinni

Það var ljóst að Stólarnir voru tilbúnir frá fyrstu mínútu en þeir keyrðu yfir ríkjandi Íslands- og bikarmeistara í upphafi leiks. Antonio Hester skoraði fyrstu körfu leiksins og áður en menn vissu af þá var staðan orðin 11-0 Tindastól í vil. 

Sigtryggur Arnar Björnsson hélt svo áfram frá því sem var horfið í undanúrslitum en hann virtist varla geta klikkað á skoti. Staðan var orðin 19-2 áður en KR-ingar loksins vöknuðu. Eða í raun vaknaði Björn Kristjánsson en hann skoraði fyrstu 11 stig KR í leiknum og breytti stöðunni í 19-11. Á sama tíma þurfit Sigtryggur Arnar að setjast á bekkinn þar sem hann var kominn með 3 villur.

Það tók Tindastól smá tíma að finna taktinn eftir að Sigtryggur fór á bekkinn en Björgvin Hafþór Ríkharðsson fann hann svo sannarlega en hann setti niður tvo þrista með stuttu millibili og voru Stólarnir 12 stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, staðan 28-16. 

Engin leið að stoppa

Þegar KR setti fyrstu stig 2. leikhluta þá héldu margir að bikarmeistarar síðustu tveggja ára væru að vakna. Það var hins vegar ekki raunin og Stólarnir voru fljótlega komnir 15 stigum yfir, og það með Sigtrygg Arnar á bekknum. 

Sóknarleikur KR var hreinlega í molum á meðan bæði sóknar- og varnarleikur Tindastóls var upp á tíu en munurinn var kominn upp í 20 stig um miðbik 2. leikhluta, staðan 41-21 Tindastól í vil. Á þessum tíma voru þeir Brynjar Þór Björnsson, Darri Hilmarsson, Pavel Ermolinskij, Brandon Penn og Zaccary Alen Carter allir stigalausir í KR liðinu.

Stólarnir fóru yfir 50 stiga múrinn þegar það voru ennþá tvær mínútur eftir af fyrri hálfleik. Hreint út sagt ótrúlegur hálfleikur hjá þeim en KR-ingar vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Þegar flautað var til hálfleiks var munurinn orðinn 24 stig og leikurinn svo gott sem búinn, staðan 57-33. 

Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Kolodziejski  -  RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Kolodziejski  -  RÚV

Pétur Rúnar sá til þess að KR kæmist ekki inn í leikinn

KR tókst að minnka muninn í 20 stig strax í upphafi síðari hálfleiks, þeir fóru hins vegar illa að ráði sínu og náðu ekki að minnka muninn enn frekar áður en Pétur Rúnar Birgisson setti þriggja stiga körfu sem kom Tindastól aftur 23 stigum yfir og slökkti í endurkomu KR-inga, ef endurkomu skyldi kalla.

KR tókst samt sem áður að minnka muninn niður í 18 stig um miðbik 3. leikhluta en þá hélt Pétur Rúnar áfram að salla niður þriggja stiga körfum en hann fékk knöttinn tvisvar sinnum eftir að samherjar hans náðu sóknarfrákasti og í bæði skiptin fór knötturinn rakleiðis ofan í körfuna. Staðan orðin 71-50 þegar tvær og hálf mínúta voru eftir af 3. leikhluta. 

KR tókst að minnka muninn niður í 19 stig áður en leikhlutinn rann út, staðan þá 72-53. Það var samt sem áður ljóst að Vesturbæingar væru ekki að fara verða bikarmeistarar þriðja árið í röð.

Stólarnir hvergi nærri hættir

Þeir sem voru að vonast eftir endurkomu KR þurfa að bíða lengi en Stólarnir hreinlega kafsigldu Vesturbæinga í upphafi 4. leikhluta og þakið var við það að rifna af Höllinni. 

KR-ingar voru hægir á báðum endum vallarins og réðu ekkert við leikgleði Tindastóls í dag. Það má reikna með að fagnaðarlætin á Sauðárkróki standi eitthvað fram á nótt en Tindastóll vann leikinn á endanum með XX stiga mun. Hreint út sagt ótrúleg frammistaða Tindastóls á meðan KR-ingar fara heim með skottið á milli lappana. 

Tölfræði leikmanna

Pétur Rúnar Birgisson fór á kostum í síðari hálfleik í dag en hann setti alls 22 stig ásamt því að gefa 8 stoðsendingar og taka 7 fráköst. Sigtryggur Arnar Björnsson var aðeins rólegri en í undanúrslitaleiknum gegnum Haukum en hann setti 20 stig í dag ásamt því að taka 7 fráköst og gefa 4 stoðsendingar. 

Björn Kristjánsson var einn af fáum leikmönnum KR sem var með lífsmarki í dag en hann setti 22 stig ásamt því að taka 3 fráköst og gefa 2 stoðsendingar. Jón Arnór Stefánsson kom þar á eftir með 15 stig á meðan Kristófer Acox var með tvöfalda tvennu en hann setti 13 stig og tók 12 fráköst.

Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður