Þúsundir mótmæltu í Perú

12.01.2018 - 05:30
epa06432133 Peruvians participate during a demonstration dressed as ex president Alejandro Toledo (L), ex president Alberto Fujimori (2-L), adviser Valdimiro Monmtesinos (2-R) and President Pedro Pablo Kuczynski (R) in Lima, Peru, 11 January 2018.
Mótmælendur í gervi þriggja fyrrverandi forseta Perú og Kuczynskis, núverandi forseta, gengu um götur Lima á fimmtudag.  Mynd: EPA-EFE  -  EFE
epa06432132 Peruvians participate during a demonstration in Lima, Peru, 11 January 2018. Thousands of people demonstrated in several cities of Peru against the pardon granted on 24 December by President Pedro Pablo Kuczynski to former President Alberto
 Mynd: EPA-EFE  -  EFE
Þúsundir Perúmanna flykktust út á götur fjölda borga og bæja í gær og kröfðust afsagnar Perúforseta. Ástæðan er náðun forsetans, Pablos Kuczynskis, á forvera hans í embætti, hinum umdeilda Alberto Fujimori. Er þess krafist að náðunin verði ógilt og Fujimori fangelsaður á ný. Stúdentar, meðlimir verkalýðshreyfingarinnar og baráttufólk fyrir mannréttindum fjölmennti í mótmælunum í höfuðborginni Lima, og það gerði lögregla líka.

Innanríkisráðuneytið telur að um 5.000 manns hafi mótmælt í Lima en fréttamenn sjónvarpsstöðvar í höfuðborginni segja mótmælendur þar hafa verið um 8.000. Fremstir í flokki fóru svartklæddir aðstandendur fólks sem dauðasveitir stjórnvalda drápu í valdatíð Fujimoris.

Mótmælin í gær voru fjórðu fjöldamótmælin í Perú síðan Kuczynski náðaði hann síðastliðið aðfangadagskvöld. Aðeins þremur dögum fyrr höfðu sonur Fujimoris og flokkssystkin hans á þingi forðað Kuczynski frá því að verða kærður til embættismissis vegna spillingarmála. Þó hafði Kuczynski margítrekað í kosningabaráttu sinni gegn dóttur Fujimoris 2016, að það myndi hann aldrei gera. Mótmælendur, sem einnig söfnuðust saman í Arequipa, Cusco og fleiri borgum, saka forsetann um eiðrof, spillingu og baktjaldamakk og segja hann hafa náðað Fujimori til þess eins að bjarga eigin pólitíska skinni. Þessu vísar Kuczynski á bug og segist hafa náðað Fujimori af mannúðarástæðum, pólitík hafi ekkert með málið að gera.

Fujimori, sem er 79 ára gamall, hefur verið á sjúkrahúsi síðustu vikur. Hann var á sínum tíma dæmdur til 25 ára fangelsisvistar fyrir misbeitingu valds og gróf mannréttindabrot sem hann lét líðast og ýtti jafnvel undir í valdatíð sinni frá 1990 til 2000. Áætlað er að um 69.000 manns hafi týnt lífi í átökum andófsmanna og öryggissveita stjórnvalda á þessum árum. Meðal hinna síðarnefndu voru illræmdar, vopnaðar sveitir manna sem störfuðu utan laga og réttar, svokallaðar dauðasveitir. Fujimori var meðal annars sakfelldur fyrir að gefa samþykki sitt fyrir mörgum voðaverka þeirra sveita.