„Þurfum að eiga algjöran toppleik“

14.01.2018 - 09:00
„Það auðveldar klárlega undirbúninginn fyrir Króataleikinn að hafa unnið Svía. Það væri þungt að fara inn í þennan leik við Króata með tap á bakinu. Þannig það skipti öllu máli að hafa byrjað mótið almennilega og komast strax á blað. Núna er bara allt opið í þessu,“ sagði Rúnar Kárason landsliðsmaður í handbolta þegar RÚV ræddi við hann í gær um landsleikinn fram undan við Króatíu á EM í handbolta í kvöld.

„Þeir eru náttúrulega mjög sterkir, sérstaklega í fótunum. Vinnslan á þeim er rosaleg og við þurfum að eiga algjöran toppleik aftur til þess að vinna þá,“ sagði Rúnar spurður út í króatíska liðið.

Króatar eru með frábært lið

Domogoj Duvnjak leikstjórnandi Króatíu var borinn af velli undir lok leiks á móti Serbíu í fyrrakvöld og spilar tæplega við Ísland í kvöld. Rúnar segir það litlu breyta fyrir Ísland. „Í raun og veru ekki. Þeir missa vissulega út stóran póst hjá sér, en þeir eru með gjörsamlega frábært lið. Það veikir þá alveg eitthvað. En þeir eru með mann eins og [Luka] Cindric, einn besta handboltamann í heimi og svo bara ótrúlega vel mannaðir í öllum stöðum. Það er ekki hægt að tala um að neitt sé í höfn bara þó að Duvnjak sé meiddur,“ sagði Rúnar Kárason meðal annars, en viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Leikur Íslands og Króatíu á EM hefst klukkan 19:30 í kvöld og verður sýndur beint á RÚV. Þá verður leiknum einnig lýst sérstaklega í útvarpinu á Rás 2.

Mynd með færslu
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
íþróttafréttamaður