„Þú ert að sjá alls konar kroppa“

Burlesque
 · 
Leiklist
 · 
Menningin
 · 
Menningarefni

„Þú ert að sjá alls konar kroppa“

Burlesque
 · 
Leiklist
 · 
Menningin
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
12.01.2018 - 11:38.Guðrún Sóley Gestsdóttir.Menningin
„Fólk er tilbúið að borga mikla peninga fyrir að horfa á fólk gera eitthvað sem það elskar í sjálfsöryggi,“ segir Margrét Erla Maack, burlesque-listakona og -kennari um þetta listform sem á stöðugt auknum vinsældum að fagna hér á landi.

Burlesque-sýningar eru haldnar reglulega hér á landi þar sem glamúr, kynþokki og leiklist eru í fyrirrúmi. „Þetta eru skemmtiatriði fyrir fullorðið fólk með kyngervi, kynþokka og fara í mjög ódýrt fullorðinsgrín, myndi ég segja. Sumir grína, og sumir grína ekki - en þetta er alltaf fólk að leika sér með sitt eigið sjálfsöryggi,“ segir Margrét Erla.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Burlesque-listamenn eru af öllum stærðum og gerðum, listgreinum, umhverfi og uppruna. „Í seinni tíð hefur líkamsvirðing fléttast rosalega mikið inn í búrleskið þannig að þú ert að sjá alls konar kroppa. Þegar enduruppvakning varð svona '93, '94 í LA þá hafði þetta fram að því alltaf bara verið sama sæta mjóa stelpan en núna er þetta orðið alls konar líkamar, stórir litlir, allra kynja,“ segir Margrét og nefnir vinkonu sína, Ruby Jones, burlesque-listakonu frá Englandi. „Hún er sem sagt núna að berjast fyrir því að fólk raki sig ekki undir höndunum og snyrti ekki á sér píkuna, þannig að það sé bara eðlilegur líkami sýndur. Svo er verður stelpa að nafni Jacqueline Box með okkur í sumar, hún er í hjólastól -semelíusteinalögðum gullhjólastól- þannig að það er svona allt til í þessu.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Að sögn Margrétar er burlesque-hugtakið teygjanlegt, og getur átt við um margar gerðir sýninga. „Það er mjög erfitt að skilgreina burlesque vegna þess að það er alltaf manneskjan sem er á sviðinu, hún gerir sitt atriði alveg sjálf. Svona tveimur tímum fyrir sýningu röðum við henni saman. Þannig að í þessu er miklu styttri leið frá hugmynd að klappi heldur en í mörgu öðru.“

Fyrir mig, ekki áhorfendur

Ætli hugarfarsbreyting gagnvart kynferði í kjölfar samfélagsmiðlabyltinga á borð við FreeTheNipple og MeToo hafi haft áhrif á vinældir burlesque? „Ég held að það sé algjörlega eitthvað þar vegna þess að þetta snýst líka mikið um að þó að ég sé að gera atriði sem er sexí þá hugsa ég ekki: „nú ætla ég að gera ógeðslega sexí atriði.“ Ég ætla að gera sniðugt atriði og ég ætla að fara úr einhverjum fötum, ef einhverjum finnst það sexí þá er það bara geggjað en þetta er fyrir mig. Þér er velkomið að horfa og vera með í partíinu þannig en þetta er bara fyrir mig og svo færðu að njóta þess með mér,“ segir hún.

Hún segir að þátttakendur í burlesque-námskeiðum og þeir sem starfa við sýningar uppskeri ríkulega. „Ég myndi segja að ávinningurinn sé þessi barnslega gleði og leikvöllurinn sem þetta skapar. Það verður enginn ríkur af því að vera í burlesque. Búningarnir eru svo dýrir og svo hellirðu kampavíni yfir þá“.