Mynd með færslu
15.12.2017 - 14:19.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Snorri Helgason hefur aldrei stigið með jafn afgerandi hætti inn í þjóðararfinn og á nýjustu plötu sinni, Margt býr í þokunni. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.

Fimmta plata Snorra Helgasonar sker sig þónokkuð frá fyrra efni hans. Á plötum hans fram til þessa hefur þjóðlagatónlist, amerísk sem ensk, spilað rullu í lagasmíðum Snorra en í þetta sinnið fer hann alla leið með þá alþýðulist. Margt býr í þokunni inniheldur þjóðlagatónlist að hætti Snorra sem er nú miðlæg, ekki hluti af hrærunni. Þetta er undirstrikað með afgerandi hætti í umslagi, sem er einkar þjóðlegt og íslenskt. Við sem eldri erum fáum minningar um vísnabókina gömlu og gamlar íslenskar bækur sem maður finnur á fornbókasölum, með bókbandi frá 1930 og í gulnuðum pappír.

Meðvitað

Snorri þyrlar þessum myndum upp á meðvitaðan hátt þar sem hann hefur nú verið að lauga sig í íslenskum þjóðsögum í árafjöld, sögur sem taka sér bólstað í tíu frumsömdum lögum og textum (utan tvö). Sungið er um Fjalla-Eyvind, Valtý á grænni treyju, Fiðlu-Björn og Marbendil m.a.. Upplýsingabæklingur geymir myndir eftir Þránd Þórarinsson til enn frekari áhnykkingar og Snorri hefur, eðlilega, náð að gíra sig upp í þennan fortíðargír þar sem samstarfsmenn eru til að mynda kallaðir Guðmundur Óskar Guðmundsson frá Innri-Njarðvík og Hjörtur Ingvi Jóhannsson úr Breiðholti.

Hér byggir Snorri á sögunni um Fjalla-Eyvind.

Nú skyldi einhver ætla að tónlistin sé ramm-skandinavísk vegna þessa, nútíma uppfærsla á fyrstu tilraunum Þursaflokksins hvað íslenska arfinn varðar, en svo er ekki. Tónlistin skírskotar sem áður í ameríska (appalasíu) þjóðlagatónlist sem og enska og skoska. Jafnvel kántrí en allt þetta hnoðast um í „Snorrískum“ þjóðlagastíl sem þróast hefur í gegnum síðustu plötur.

Völundur

Á meðan síðasta plata, Vittu til, var nokk epísk, hlaðin og poppuð sólskini, er þessi strípaðri, í takt við nið þeirra alda sem undir eru. Að sama skapi er tónlistin oftast nær melankólísk og dökkleit enda sögurnar flestar á þá lund. Fyrsta lagið, „Reynirinn“, er skoskt að uppruna. Blítt en blandið trega, leitt af seyðandi söngrödd Snorra sem er löngunarfull og tilfinningaþrungin. Næsta lag, „Egilstaðablá“ er af appalasíuætt, mikið um gítarpikk og naumhyggjan stýrir för. „Grasaferð“ hefur yfir sér dulmagn og stálgítarinn flottur (Örn Eldjárn). Það lag er í einstæðum „snorrískum“ gír þó að Spilverkið svífi aðeins yfir á köflum. Og þannig má telja.

Snorri Helgason fer alla leið í þjóðlagatónlistinni á þessari plötu.

Það sem ég tek eftir, er að lögin hérna eru vel samin. Tíminn hefur unnið með Snorra. Þau eru pæld, unnin í hörgul, vel samsett og úthugsuð. Flest þeirra eru einföld og tiltölulega látlaus en þar liggur einmitt áskorunin. Það þarf vissu völundarins til að sníða út vel heppnaðan þriggja mínútna alþýðubrag, þar sem sá stakkur er fremur þröngur. Snorri er kominn á þann stað. Hann kann þetta og getur þetta. Margt býr í Snorra.

Tengdar fréttir

Tónlist

Snorri Helga með plötu af íslenskum þjóðsögum

Popptónlist

Snorri Helga velur Leyndarmál Dáta

Tónlist

Samspil angurværðar og birtu

Tónlist

Saga Garðars og Snorri Helga syngja Megas