Þægilegt hjá ÍBV í Eyjum

14.02.2018 - 20:04
Einn leikur fór fram í Olís-deild kvenna í kvöld en ÍBV vann öruggan sigur á Gróttu í Vestmannaeyjum, lokatölur 37-23. ÍBV er því sem fyrr í 4. sæti deildarinnar með 24 stig en Grótta er á botni deildarinnar með 4 stig ásamt Fjölni. Í spilaranum hér að ofan má sjá myndskeið úr leiknum sem og viðtöl.

Heimakonur byrjuðu leikinn af miklum krafti og gerðu í raun út um leikinn strax í upphafi. Þær komust 4-0 yfir og bættu svo hægt og rólega við forystu sína eftir því sem leið á fyrri hálfleik.

Það hjálpaði ekki gestunum frá Seltjarnarnesi að Lovísa Thompson, einn þeirra besti leikmaður, fékk beint rautt spjald eftir að hafa hrint Söndru Dís Sigurðardóttir sem lenti illa og þurfti aðhlynningu í kjölfarið. Talið er að Sandra Dís hafi fengið heilahristing en hún yfirgaf íþróttahúsið í sjúkrabíl.

Það fór svo að ÍBV var 11 mörkum yfir í hálfleik, staðan þá 19-8. Sóknarleikur Gróttu lagaðist örlítið í síðari hálfleik en að sama skapi þá var sóknarleikur ÍBV mjög góður og þær unnu að lokum 14 marka sigur, lokatölur 37-23.

Staðan í deildinni.

Tölfræði leikmanna

Sandra Erlingsdóttir skoraði 10 mörk fyrir ÍBV, þar af 5 úr vítum. Þar á eftir kom Ester Óskarsdóttir með 7 mörk á meðan Guðný Jenný Ásmundsdóttir (7) og Erla Rós Sigmarsdóttir (6) vörðu samtals 13 skot í markinu.

Hjá Gróttu var Savica Mrkik markahæst með 9 mörk á meðan Soffía Steingrímsdóttir varði 12 skot í markinu.

Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður