„Það eru allir að falla fyrir þessum strákum“

Hiphop
 · 
JóiPé
 · 
JóiPé og Króli
 · 
Króli
 · 
Menningin
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni

„Það eru allir að falla fyrir þessum strákum“

Hiphop
 · 
JóiPé
 · 
JóiPé og Króli
 · 
Króli
 · 
Menningin
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
28.09.2017 - 10:22.Guðrún Sóley Gestsdóttir.Menningin
„Það er ekki bara hipphoppliðið sem er að falla fyrir þessum strákum, það eru allir að falla fyrir þeim. Það eru allir að flippa,“ segir Árni Matthíasson tónlistarrýnir um Jóa Pé og Króla, stærstu nýstirni íslenskrar tónlistarsenu.

Jói Pé og Króli - Jóhannes Damian Patreksson og Kristinn Óli Haraldsson - marka sér skýra stefnu í tónsmíðunum. „Við höfum alltaf sagt að við gerum tónlist sem okkur finnst skemmtileg, við syngjum um það sem við fílum. Um leið og skemmtanagildið er farið úr þessu og við erum ekki lengur að gera þetta sem bestu vinir að hafa gaman, þá erum við að gera eitthvað vitlaust - þá er þetta orðið leiðinlegt,“ segja þeir.

Vinsælustu tónlistarmenn landsins

Fyrsta lagið af nýútkominni plötu þeirra, Gerviglingri, nefnist B.O.B.A og ætlaði allt að æra í lok sumars. Vinsældir þess virðist engan endi ætla að taka, en hálf milljón hefur horft á það á Youtube, og nýjasta plata þeirra, Gerviglingur, raðaði sér í efstu sæti vinsældalista á Spotify. Lagið hljómar úr öllum áttum, og það ber öll helstu einkenni höfundanna tveggja - galsa, húmor, hnyttinn texta og breiðar vísanir. 

Strákarnir segja flest þeirra lög verða til í svipuðu ferli. „Oftast finn ég melódíu við taktinn og hann skrifar í melódíuna,“ segir Jói. „Hann raular þá bara í svona 5 mínútur og þá er reyni ég að skrifa inn í það. Það er mjög gaman sko, mjög skemmtilegt,“ segir Króli.  

Gerviglingur er önnur plata JóaPé og Króla, en sú fyrsta, Ananas, kom út í febrúar á þessu ári. Mikil vinna liggur að baki plötuútgáfunum, en þeir vörðu öllu jólafríinu, frítíma, kvöldum og helgum í tónsmíðar. „Við vorum oft til 6 um nótt. Ég bjó heima hjá Jóa í janúar og febrúar. Foreldrar hans eru orðnir eins og foreldrar mínir líka, skamma mig eins og þau vilja og hrósa mér líka. Síðan gáfum við út plötuna 16. febrúar,“ segir Króli.

Húmor, pathos og allur pakkinn

Þegar áhugi þeirra á hipphoppi kviknaði upprunalega var hann tekinn föstum tökum. „Ég hlustaði mikið á íslenskt rapp, síðan datt ég inn í þennan pakka þegar ég horfði á Straigh Outta Compton myndina,“ segir Jói Pé. „Þá datt ég inn í 90's dæmið og kynnti mér það allt, horfði á heimildarmyndir og alls konar bíómyndir um þetta dót og það var tímabilið sem mig langaði til að byrja að rappa sjálfur.“

Króli segist hafa meðal annars tekið langt High school musical tímabil og hann sé almennt alæta á tónlist. „Ég veit að við höfum báðir tekið Michael Jackson tímabil. Síðan hoppaði ég svolítið snemma í íslenskt rapp.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Árni Matthíasson, blaðamaður og tónlistarrýnir

Árni segist vel skilja tröllvaxnar vinsældir B.O.B.U. og tónlistar strákanna í heild. „Þegar svona gerist þá er eitthvað sem talar beint til mjög stórs hluta samfélagsins. Það geislar af þeim einlægnin og þetta er svo mikið ekta og lagið er frábært. Textinn er ótrúlega góður, hann segir sögu, það er húmor, pathos, harmur og allur pakkinn. Og Króli vinnur náttúrulega leiksigur í þessu vídjói, alveg fáránlega góður,“ segir hann.

Hvorugur drengjanna segist smíða sérstaka persónu utan um rappið sitt. „Alls ekki, ég geri bara það sem ég fíla,“ segir Jói.
Króli tekur í svipaðan streng. „Það er alltaf einhver karakter sem fylgir, en þessi karakter er mjög minimalískur.“

Fjallað var um JóaPé og Króla í Menningunni, innslagið má sjá hér að ofan.

Tengdar fréttir

Tónlist

JóiPé og Króli á toppi Tónlistans

Popptónlist

„Við erum ekkert að pæla það mikið“

Mynd með færslu
Popptónlist

B.O.B.A – nýtt lag frá JóaPé og Króla