Tekist á við ofbeldismenn

Nærmynd af merki lögreglunnar með einkennisorðunum "Með lögum skal land byggja".
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti í tvígang að takast á við ofbeldismenn aðfaranótt sunnudags. Leitað var eftir aðstoð lögreglu vegna tveggja einstaklinga sem voru með mikil læti inni á skemmtistað í miðborginni. Lögregla fór á vettvang og handtók þá báða, annan vegna gruns um líkamsárás og skemmdarverk að auki, en hinn vegna þess að hann þvertók fyrir að segja á sér nokkur deili þegar eftir því var leitað.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að komast að því við hvern var að eiga hafi það ekki tekist, og því er hann nú á bak við lás og slá.

Þá óskaði leigubílstjóri eftir aðstoð lögreglu vegna farþega sem neitaði að borga fyrir aksturinn. Lögregla mætti á vettvang og leysti úr málinu. Í framhaldinu ætluðu lögreglumenn að koma viðkomandi heim til sín en hann kunni greinilega ekki að meta það því hann brást hinn versti við og réðst á laganna verði. Þeir sáu ekki annan kost í stöðunni en að yfirbuga manninn, sem gistir nú fangageymslu. Svo vill til að tilkynning um bæði tilvik bárust lögreglu klukkan 03.38. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV