Tandurhreinn óður til níunda áratugarins

Gagnrýni
 · 
Poppland
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni

Tandurhreinn óður til níunda áratugarins

Gagnrýni
 · 
Poppland
 · 
Tónlist
 · 
Tónlistargagnrýni
 · 
Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
09.02.2018 - 13:10.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Herbert Guðmundsson stendur á bakvið Starbright plötuna en nýtur og góðrar aðstoðar frá syni sínum Svani. Platan er um margt „eítís“-miðuð en Arnar Eggert Thoroddsen rýnir hér í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.

Herbert Guðmundsson hefur átt nokkur skeið í tónlistinni en hann verður alltaf þekktastur fyrir innslög sín á níunda áratugnum, eða í „eitísinu“ eins og það er gjarnan nefnt. Smellur hans, „Can‘t Walk Away“ er eitt af eilífðarlögum lands og þjóðar, ofurslagari sem keyrir alla í gang, alltaf, alls staðar.

Náið

Starbright, sem hann vinnur náið með syni sínum Svani (sem rekur einnig eigin sveit, Swan Swan H), ku vera tandurhreinn óður til níunda áratugarins í efni öllu og úrvinnslu. Það er nokkuð glæsilega undirstungið með titillaginu sem opnar og plötuna. „Starbright“ er drífandi og töff, rótfast á skammlausan hátt í hljóðheimi níunda áratugarins og gengur fullkomlega upp. Myndbandið er líka vel heppnað og nikkar létt til myndbandsins við „Can‘t Walk Away“. Ungir hljóðfæraleikarar af báðum kynjum styðja við okkar mann og þetta er fallegur heihringur sem blasir við manni. Ef Herbert hefði gefið út sama lag um miðjan tíunda áratuginn hefði verið hlegið að honum. En núna eru allir helsáttir enda tengir hann inn í ákveðna endurreisn sem þessi áratugur hefur gengið í gegnum síðastliðin ár. Svona fer menningartískan í hringi.

Platan er keyrð áfram á svipaða lund fyrst um sinn. „Forevermore“, „Work on it“ og „We can do it“ eru dramabundnir ópusar; textarnir ákall um sigur mannsandans og áhersla öll á jákvæða afstöðu til lífsins. Þessi stórkarlalegi gír sem sveitir eins og Simple Minds og Spandau Ballet settu í þegar sá gállinn var á þeim er óspart nýttur.

Það hallar lítið eitt undan fæti er líður á plötuna. Lögin sem koma undir rest eru ekki jafn sterk og þau sem prýða upphafið. Um leið er eins og konseptið fölni lítið eitt. „You came to me“ er t.d. ballaða sem er ekki endilega bundin í eitís-ið og svipaða sögu má segja af „Along the way“. Plötunni er slauffað með fínasta lokaerindi, „Memories“ hefst með Coldplay-legu píanóstefi og platan endar á snotran hátt.

Mynd með færslu

Umslag

Eitt sem ég verð að nefna, er að það hefði mátt vanda betur til verka hvað umslagið varðar, sérstaklega ef fanga átti anda níunda áratugarins. Umslagið gefur til kynna að innihaldið sé ódýr nýaldartónlist frá miðbiki tíunda áratugarins og nær því miður ekki að fara heilhring í hallærislegheitum. Þannig er það nú. Mér skilst samt að vínyllinn muni fá að lúra í annars konar umslagi.

Starbright er á margan hátt vel heppnað verk, höfum það á hreinu. Hún hefði grætt á því ef konseptinu hefði verið fylgt fastar eftir en sú umkvörtun er þó léttvæg í stóra samhenginu. Ég get heldur ekki „gengið frá“ Herberti Guðmundssyni.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Starbright

Tónlist

Algerlega frábær plata

Tónlist

Íslensk alþýðutónlist

Tónlist

Eitt sinn pönkari, ávallt pönkari