Svavar Garðarsson er Vestlendingur ársins

03.01.2018 - 16:31
Mynd með færslu
 Mynd: Steinunn Matthíasdóttir  -  Skessuhorn
Svavar Garðarsson, íbúi í Búðardal, er Vestlendingur ársins 2017 en útnefninguna hlýtur hann fyrir að betrumbæta nærumhverfi sitt og fyrir að þyrma lífum selskópa úr Húsdýragarðinum. Héraðsfréttablaðið Skessuhorn stóð fyrir valinu.

Fegrar umhverfið og sinnir selum

Í umsögnum þeirra sem greiddu Svavari atkvæði sitt kom fram að Svavar hefur varið hundruðum klukkustunda í sjálfboðaliðastarf við að fegra og bæta umhverfið á heimaslóðum í Búðardal. Hann lagfærir og hreinsar opin svæði og er öðrum íbúum hvatning til góðra verka. Þá hefur Svavar unnið að því að þyrma lífum landselskópa úr Húsdýragarðinum með því að flytja þá í Búðardal þar sem hann sinnir þeim, fóðrar og vinnur að því að fá að sleppa þeim aftur í sjó. Í frétt Skessuhorns segir að Svavar hafi fengið fjölda tilnefninga en alls voru 32 eintaklingar tilnefndir.

Fallegri heildarsvipur eftir hvert verkefni sem klárast

Svavar er frá Hríshóli í Reykhólasveit en hefur búið í Búðardal síðustu 42 árin. Fyrir um sex til sjö árum hófst hann handa við endurbætur á sínu nærumhverfi og segist gera það einfaldlega til að það líti betur út: „Og það gerir það eftir hvert verkefni sem klárast. Þá kemur fallegri heildarsvipur.“ Svavar segist hafa byrjað á þeim svæðum sem litu hvað verst út.

Svavar segist þakklátur útnefningunni og vonar að verkefni hans verði öðrum hvatning, allir geti bætt og lagað sitt nærumhverfi.

Rætt var við Svavar í umfjöllun RÚV um landselskópana í Búðardal fyrr í vetur og má nálgast fréttina hér.